Það er ómögulegt að verða sextug þegar ástandið í samfélaginu er eins og það er. Ég ætla því að vera 59 ára um óákveðinn tíma. Sennilega verður sumarpartí,“ segir Björg Eva Erlendsdóttir glaðlega og heldur áfram: „Mér finnst skammdegið ekki henta fyrir afmælisveislu, það má enginn vera að neinu rétt fyrir jólin. Ég hef því alla tíð haldið upp á afmælið þegar mér sýnist, fertugsafmælið í júlí og fimmtugsafmælið einu sinni í viku allt árið. Núna er manni sagt að hitta helst ekki neinn og þá bara hlíti ég því.“

Vonar að norsku genin nýtist

Björg Eva er framkvæmdastjóri Vinstri grænna og er að byrja á fjarfundi þegar ég heyri í henni fyrst, svo ég prófa nokkrum tímum seinna. Þá er hún komin upp í Hreppa og bíður úti í bíl eftir einhverjum úr sóttkví á æskustöðvum sínum að Hamarsheiði í gamla Gnúpverjahreppi. Þar er nú frístundabýli en hún segir föður sinn hafa verið bónda þar og skeifnasmið þegar hún var að alast upp – „og hann var Sjálfstæðismaður,“ bætir hún við. „Ég ólst upp bæði í hægri og vinstri pólitík, foreldrar mínir voru ekki sammála í þeim efnum. Mamma er norsk og vinstrisinnuð og náði að snúa pabba til betri vegar því hann endaði í Kvennalistanum! Stundum fæ ég að heyra að ég sé norski, níski framkvæmdastjórinn! En ég ber virðingu fyrir því hvernig Norðmenn umgangast peninga, þeir eru flinkari í því en Íslendingar og ég vona að mín norsku gen nýtist í að fara vel með fjármuni VG.“

Spurð hvort hún hafi aldrei hugleitt að setjast á þing fyrir flokkinn, svarar Björg Eva: „Nei, en ég vann í sextán ár á Ríkisútvarpinu, meðal annars sem þingfréttamaður og hef alltaf haft áhuga á pólitík. Það skemmtilegasta við hana er að berjast fyrir eigin hugsjónum en þegar fólk er komið inn á þing, þarf það að gera gott betur.“

Hundrað manna fjarfundur

Björg Eva segir starf sitt nú snúast minna um pólitík en ætla mætti en það sé áhugavert enda kynnist hún bæði fólki og málefnum. „Það hafa orðið miklar breytingar frá því ég byrjaði í upphafi árs 2016. Þá voru kosningar á hverju ári og flokkurinn átti enga peninga. En nú hefur verið friðsamlegt undanfarið og fjármálin í betra horfi, enda fara þau mikið eftir árangri og lög hafa verið sett um meiri styrki til stjórnmálaflokka en áður. Það er hollara fyrir lýðræðið en ef stórfyrirtæki reka flokka. Svo fleygir tækinni fram og á þessu ári hefur hún verið gjörnýtt. Við héldum nýlega flokksráðsfund á netinu með um hundrað manns, því fylgdi ákveðið flækjustig, við undirbjuggum hann á skrifstofunni og þurftum að skrifa frekar nákvæmt handrit. Landsfundur er svo fyrirhugaður í mars og verður spennandi að sjá hvort um fjarfund verður að ræða, hann verður þá enn stærri.“

Mikill ferðasirkus

Eins og fram hefur komið var Björg Eva fréttamaður á Ríkisútvarpinu og kveðst hafa notið þess. „Mér fannst líka gaman að vera í Norðurlandaráði. Fékk það starf örugglega af því ég hafði verið fréttamaður í Noregi, bæði á NRK og nokkrum blöðum. Norðurlandaráð er mikill ferðasirkus og ég var að vinna fyrir alla vinstri flokkana á Norðurlöndum með skemmtilegu fólki.“