Bankahrun, eldgos og Covid er allt sem Fiskmarkaðurinn hefur staðið af sér síðan hann opnaði 2007. Það er ekkert algengt að veitingastaðir lifi svo lengi, hvað þá þrjú stór áföll.

Hrefna Sætran, annar af eigendum staðarins, segir að þegar hún og Ágúst Reynisson, meðeigandi hennar kynntust í Sjávarkjallaranum hafi eitthvað smollið og þau ákveðið að opna stað. „Eldgosið tók af okkur stóran hluta ferðamanna svo við þurftum að aðlaga okkur þar, hrunið færði okkur annan hóp af viðskiptavinum og svo Covid, sem gerði þetta bæði og meira til og í mun lengri tíma. Það er ótrúlega margt utanaðkomandi sem getur komið upp á í veitingahúsarekstri sem er ólíkt mörgum öðrum brönsum. Maður þarf alltaf að vera á tánum til að lifa af, sama hvort það er heimsfaraldur eða ekki,“ segir hún.

Hún segir að þegar hún var að læra kokkinn hafi ekki verið til margir staðir mikið eldri en fimm ára sem þótti ágætt. „Ég verð að segja að ég hafði aldrei beint hugsað út í þetta eða verið með markmið að ná einhverjum árum. Svo eru allt í einu bara komin 15 ár. Maður er alltaf á fullu bara í því sem þarf að gera og ef maður gerir það vel þá trúi ég að það blómstri. Við höfum alltaf lagt okkur öll fram við að vera með á nótunum í mat, drykk, þjónustu og hönnun á staðnum og það skín í gegn. Fólk finnur að það er hugsað um staðinn af alúð og líður vel hjá okkur.“

Frá því Hrefna opnaði hefur ýmislegt breyst. „Það voru ekki til egg í brúsa þegar ég var að læra, til dæmis, og ekki allt þetta forbakaða brauð svo ég var alltaf á fullu að skilja egg og henda í brauð. Mér líður eins og ég sé 100 ára að segja þetta,“ segir hún og hlær. „Það er orðið mun meira um ofnæmi og óþol en áður. Hvort fólk sé meðvitaðra um það bara, eða hvað það er, veit ég ekki en það er búið að breytast svakalega. Fólk vill líka mun hraðari þjónustu og fá matinn hraðar en var áður. Það er bara meiri hraði í öllu í dag svo þaðan kemur það, held ég. Það hefur líka stóraukist úrvalið á mat og víni hér á landi. Allt grænmetið og ávextirnir, kjötið og fiskafurðir.

Svo er líka mikill munur á neyslu fólks sem er gott. Fólk vill minna vera að sóa mat og pantar sér því eftir því. Það er mjög jákvætt finnst mér að fólk sé meðvitaðra. Meðvitaðri kúnnar og neysla kemur betur út fyrir heiminn okkar.“

Aðspurð hvað hafi verið skemmtilegast á þessum 15 árum segir hún að það sé vöruþróunin. „Við viljum að fólk verði fyrir upplifun þegar það kemur til okkar og vinnan á bak við það er mikil en skemmtileg.“

Og erfiðast hefur bara eitt svar. „Klárlega Covid. Punktur, segir Hrefna.“