Tímamót

Fimm­tán ár eru frá inn­rás Banda­ríkjanna í Írak

Ekki voru til nægilega niðrandi orð um forseta Bandaríkjanna að mati forsvarsmanns samtakanna Átaks gegn stríði. Íraksstríðið var umdeilt strax í upphafi en það hófst fyrir fimmtán árum. Hundruð þúsunda týndu lífinu í stríðinu sem spannaði tæp níu ár.

Mótmælt var meðal annars fyrir framan Stjórnarráðið og á Austurvelli. FRÉTTABLAÐIÐ/ÞÖK

Fyrir fimmtán árum hófu Bandaríkin stríðsrekstur í Írak. George W. Bush, þáverandi forseti Bandaríkjanna, hafði gefið íröskum starfsbróður sínum, Saddam Hussein, frest til 19. mars 2003 til að afstýra stríði með því að yfirgefa land sitt. Hussein sat hins vegar sem fastast og hófst stríðið í kjölfar þess.

Hundruð þúsunda týndu lífinu í stríðinu sem spannaði tæp níu ár. Upphaflega bjuggust Bandaríkjamenn við að stríðið myndi standa stutt yfir. Sálfræðihernaður hafði staðið yfir löngu áður en vopnuð átök hófust og var gengið út frá því að íraskar hersveitir og andspyrnumenn myndu leggja vopn snarlega niður. Það gerðist ekki. Áhrifa stríðsins gætir enn um heim allan.

Þrjátíu ríki studdu stríðsreksturinn en Colin Powell, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að alls fimmtán ríki til viðbótar stæðu að baki stríðinu en vildu ekki gera það opinberlega. Ísland var ein af hinum „viljugu þjóðum“. Skoðanakannanir bentu til þess að 91 prósent íslensku þjóðarinnar væri andvígt stríðinu. Ísland var sett á listann án þess að kanna vilja þingsins.

„Mér finnst Bandaríkjamenn hafa oftúlkað þennan lista,“ sagði Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra á forsíðu Fréttablaðsins daginn eftir að listinn var gerður opinber.

Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði við Morgunblaðið að í þessu fælist fernt. „Í þessu felst í fyrsta lagi heimild til yfirflugs yfir íslenska flugumsjónarsvæðið. Í öðru lagi heimilum við afnot af Keflavíkurflugvelli ef þurfa þykir. Í þriðja lagi tökum við þátt í uppbyggingu í Írak eftir að ófriði lýkur. Í fjórða lagi tökum við pólitíska afstöðu með því að ályktun 1441 verði fylgt eftir, að loknu fjögurra mánaða þófi.“

Stríðinu var mótmælt víða um heim og meðal annars á Íslandi. Um 2.000 manns mættu á mótmæli á Austurvelli daginn sem stríðið hófst. Nokkrir nemar úr Listaháskóla Íslands tóku sig til að mynda til og skvettu rauðri málningu á Stjórnarráðið. Þau höfðu einnig skreytt sig sjálf með rauðri málningu og „lágu í valnum“ á víð og dreif á grasfletinum fyrir framan húsið. Það voru samtökin Átak gegn stríði sem stóðu fyrir fundinum.

„Mín skoðun á Bush Bandaríkjaforseta? Það eru eiginlega ekki til nógu niðrandi orð. Hann er dæmi um mestu lágkúru og afturhaldssemi sem komið hefur í Hvíta húsið og er þá langt til jafnað,“ sagði Þorvaldur Þorvaldsson, einn forsvarsmanna samtakanna, á fundinum.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Tímamót

Þetta gerðist 18. janúar 1968

Tímamót

Laga­smíða­nám­skeið fyrir ungar konur

Tímamót

Þreyta frumraun með Sinfó

Auglýsing

Nýjast

Þetta gerðist 16. janúar

Stjörnu­stríð á í­þrótta­móti í tölvu­leiknum Fortni­te

Margrét Þórhildur verður drottning

Jafnrétti sinnt í Kópavogi

Fjallað um hinn nýja reka á Hornströndum

Íslenska óperan vígð með viðhöfn

Auglýsing