Þetta gerðist: 10. júní 1986

Seðlabanki Íslands setti fimm þúsund króna seðilinn í umferð á þessum degi árið 1986. Um leið var fimmtíu aura-myntin útbúin úr koparhúðuðu stáli, en fram til þessa hafði hún verið úr bronsi.

Ragnheiður Jónsdóttir (1646- 1715), biskupsfrú á Hólum, prýðir seðilinn og annað myndefni seðilsins var sótt í líf hennar, hannyrðir og kennslu. Þannig var valin til myndskreytingar mynd af eiginmanni hennar, Gísla Þorlákssyni Hólabiskupi, og tveimur fyrri eiginkonum hans.

Ragnheiður er meðal annars þekkt fyrir fagrar hannyrðir sínar og til merkingar verðgildis seðilsins var notað útsaumsletur Ragnheiðar úr sjónabók hennar. Á bakhlið seðilsins er mynd af Ragnheiði og tveimur nemendum hennar að skoða altarisklæði sem hún gerði fyrir Laufáskirkju í Eyjafirði en það hefur varðveist og er geymt á Þjóðminjasafni Íslands. Auglýsingastofa Kristínar hf. sá um að teikna seðilinn sem fylgdi að útliti þeirri seðlaröð sem gefin hafði verið út frá árinu 1981, með vatnsmerki og öryggisþræði. Aðallitur seðilsins var blár, en þar áður hafði verið gefinn út brúnn fimmtíu króna seðill, grænn hundrað króna seðill, rauður fimm hundruð króna seðill og fjólublár þúsund króna seðill. Seðillinn var framleiddur í Bretlandi.