Boðið er upp á svokallaða Fiktdaga alla miðvikudaga frá 15 til 18. Sá fyrsti er á morgun. Þar gefst gullið tækifæri til að rækta kunnáttuna með fikti og félagsskap.

Karl James Pestka, verkefnastjóri safnsins, er búinn að prufukeyra græjurnar. Hann segir kunnáttu ekki skilyrði fyrir fikti í þeim en aldurstakmark sé 13 ár.

„Það er miðað við að allir geti unnið sjálfstætt en starfsfólk safnsins veitir aðstoð við fyrstu skrefin. Svo lærir fólk af mistökum og hjálpar hvert öðru,“ segir Karl sem kveðst flakka á milli bókasafnanna í Gerðubergi og Grófinni og þessa viku sé hann í Grófinni.

Ekkert kostar að taka þátt og engin skírteini gilda, að sögn Karls.

„Það er bara að mæta. Fólk getur komið með eigin fartölvur en á staðnum eru fjórar iMac tölvur, til að nota þær er vissara að koma snemma eða bóka sæti. ■