Sigríður Rut Hreinsdóttir sýnir olíumálverk í ýmsum stærðum í Kirsuberjatrénu sem ekki hafa verið til sýnis áður. Hún sækir innblástur í náttúruna. „Ég vonast til að myndirnar hreyfi við ímyndunarafli áhorfandans og fái hann til að hugsa um sjálfan sig sem hluta af náttúrunni og um eigin hamingju,“ segir hún með áherslu.

„Fífillinn hefur fylgt mér lengi og komið í gegn í myndunum mínum,“ segir Sigríður Rut og heldur áfram: „Ég man ekki nákvæmlega hvernig það gerðist en líklega var það þegar ég fann risastóra fífla á Þingvöllum. Þá hafði ég verið að skissa myndir af konum, sá svo þessa fífla og leggirnir voru allir krullaðir undan vindinum en samt heilir. Mér datt í hug að móta kvenlíkama úr leggjunum en nú eru fíflablöðin orðin meira ráðandi í myndsköpuninni. Þau höfða sterkt til mín og auðvitað blómin líka þegar þau birtast mér í breiðum úti í náttúrunni, hvort sem þau eru enn í gula litnum eða hafa breyst í biðukollur.“ Spurð hvort hún hafi hlaupið um tún í uppvextinum neitar hún því, heldur kveðst hafa alist upp á Akranesi. „Þar voru auðvitað fíflar í görðum og maður blés sápukúlur gegnum leggina og lék sér með biðukollurnar,“ rifjar hún upp. „Svo hefur fífillinn víst lækningamátt.“

Málverkin hennar Sigríðar Rutar eru í ýmsum litum eins og sjá má hér.

Nú býr Sigríður Rut í Vesturbænum í Reykjavík í gömlu, friðuðu timburhúsi frá 1902, sem hún og maður hennar keyptu síðasta haust og eru að vinna að endurbótum á. Hún á japanskan mann, Nobuyasu Yamagata heitir hann og er listamaður líka. „Við kynntumst í Myndlista- og handíðaskólanum. Hann smíðar fiðlur, málar og ýmislegt fleira og þegar endurbótum á húsinu lýkur verðum við komin þar hvort með sína vinnustofu,“ lýsir hún brosandi.

Þetta er sjöunda einkasýning Sigríðar Rutar, tíu samsýningum hefur hún líka tekið þátt í á ferlinum. Svo er hún menntaður sjúkraliði og hefur starfað við það fag með listinni. „Sjúkraliðastarfið er skemmtilegt, það felur í sér mannleg samskipti og hreyfingu og svo hentar mér vel að vinna á vöktum. Ég hef aðallega verið á Landakoti, þangað hef ég átt svo stutt að fara að heiman. Landakot var spítali og nunnurnar voru þar þegar ég byrjaði, svo breyttist það í öldrunarstofnun.“

Sigríður Rut útskrifaðist úr í Myndlista- og handíðaskólanum 1990 og kveðst öll námsárin líka hafa verið á námskeiðum í Myndlistaskóla Reykjavíkur á kvöldin, í vatnslita- og módelteikningum. En grunnnám stundað hún úti í Noregi. „Þar byrjaði ég í teikningu og form- og litafræði þegar ég var að vinna sem sjúkraliði á kristilegu sjúkrahúsi í Ósló sem heitir Diakonhjemmet, var þar í rúm tvö ár. Ég var fyrst að hugsa um að fara í kennaranám en svo valdi ég myndlistina og sé ekki eftir því.“

Faðir Sigríðar Rutar var Hreinn Elíasson myndlistarmaður, þannig að hún er alin upp af listamanni. „Pabbi var með stóra og fína vinnustofu sem hann byggði sjálfur. Hann málaði með pastellitum, vann með mósaík og teiknaði líka mikið, sérstaklega seinni árin, mjög kröftugar blýantsteikningar, hann var fjölhæfur og afkastaði miklu,“ lýsir hún. Þannig að þú hefur alltaf haft aðgang að litum, segi ég. „Nei, reyndar ekki. Hann var alls ekki að halda þeim að mér en líklega hefur listaþráin leynst í mínum genum.“

Fyrirhuguð sýningarlok eru 15. júlí, sem sagt nú á mánudaginn. Kirsuberjatréð er opið til klukkan 17 um helgina en til 19 á mánudag.