Tímamót

Ferð sem hófst fyrir ellefu mánuðum endaði vel

Það var ánægjulegur söfnuður sem kom úr sumarferð Áskirkjusóknar til Eyja síðasta sunnudag. Lagt var upp fyrir 11 mánuðum en vegna mistaka missti hópurinn af Herjólfi þá.

Hópurinn alsæll við heimkomuna eftir vel heppnaða ferð. Mynd/Gun

Sextíu manna hópur í Safnaðarfélagi Áskirkju í Reykjavík fór í vel heppnaða dagsferð til Vestmannaeyja 10. júní. Það var tilraun hans númer tvö til að stíga þar á land, sækja messu í hinni aldagömlu Landakirkju og upplifa töfra Eyjanna. Hún heppnaðist fullkomlega.

Fyrri tilraunin sem gerð var 9. júlí í fyrra mistókst vegna þess að bókun hjá rútufyrirtækinu Skybus týndist. Það gerði þó sitt besta til að redda málum en brottför seinkaði,  bíllinn  var  hæggengur og Herjólfur nýbúinn að leysa landfestar þegar hópurinn mætti í Landeyjahöfn.

Nú gáfu bæði fyrirtækin, Skybus og Herjólfur, safnaðarfélaginu fargjöldin og bættu þátttakendum þannig upp vonbrigðin í fyrra á höfðinglegan hátt, að sögn Petreu Ómarsdóttur, formanns Safnaðarfélags Áskirkju.

Kennimennirnir Viðar Stefánsson, Fjalarr Sigurjónsson og Sigurður Jónsson. Fjalarr var meðal farþega, hann er elsti núlifandi prestur landsins. Mynd/Jóhanna Friðriksdóttir

„Dæmið gekk fullkomlega upp í þetta sinn og allir lögðust á eitt til að ferðin yrði sem yndislegust fyrir okkur. Við fengum fullkomna rútu á réttum tíma, frábært viðmót bílstjóra, notalega siglingu, gott veður og afbragðs viðtökur og mat á Slippnum. Presturinn okkar, hann séra Sigurður Jónsson, var fararstjóri eins og venjulega og í Eyjum tók séra Viðar Stefánsson, prestur í Eyjum, á móti okkur og sagði okkur frá staðháttum þegar við rúntuðum þar um á rútunni.“

Petrea segir guðsþjónustu fastan lið í sumarferðum sóknarbarna Áskirkju, þar skiptu séra Sigurður og heimaprestur á áfangastaðnum jafnan með sér verkum. Auk messunnar og matarins hafi hópurinn notið hinnar áhrifamiklu sýningar í Eldheimum áður en hann lagði í hann aftur upp á fasta landið.

„Ég var svo glöð í hjarta mínu þegar ég kom heim,“ segir Petrea. „Allir voru svo sáttir.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Tímamót

Fyrsta konan útskrifast frá Háskóla Íslands

Tímamót

Hef vonandi náð að gleðja einhverja í gegnum lífið

Tímamót

List í ljósi er okkar barn

Auglýsing

Nýjast

Árás á Downingstræti

Abdúlla verið konungur Jórdaníu í tuttugu ár

Apollo 14 lendir á Tunglinu

Stefán Jóhann Stefánsson verður forsætisráðherra

Þegar Challenger-skutlan fórst yfir Flórídaskaga

Burns kvöld á BrewDog

Auglýsing