Við biðum eftir tilmælum frá stjórnvöldum og eftir fund með bæjaryfirvöldum og almannavörnum hér á Patreksfirði var sameiginleg ákvörðun að aflýsa hátíðahöldum í þessu litla samfélagi. Veiran er sprottin upp og þá verðum við að bregðast við því, segir Karna Sigurðadóttir, heimildamyndahöfundur og einn skipuleggjenda Skjaldborgarhátíðarinnar á Patreksfirði „Allur undirbúningur var unninn í samráði við almannavarnir á Patreksfirði og eftir að við aflýstum kom lögreglufulltrúi og þakkaði okkur fyrir samstarf og vönduð vinnubrögð.“

Karna kveðst hafa gengið til liðs við framkvæmdateymi Skjaldborgar síðasta haust, þannig að þetta er fyrsta Skjaldborgarhátíðin sem hún skipuleggur. „Við vorum með plan A, B og C alveg frá því í vetur. Frestuðum hátíðinni um hvítasunnu fram að verslunarmannahelgi en þegar landamærin voru opnuð vissum við að brugðið gæti til beggja vona. Framvindan var samt mjög hröð á síðustu dögum og nálægt hátíðinni komið. Við vorum með atriði í biðstöðu, eins og að fá bíóbúnað frá Bíó Paradís til að setja upp í félagsheimilinu og geta þannig haldið tilskilinni fjarlægð milli áhorfenda en vildum alltaf vanda okkur og vera í samstarfi við heimamenn.“