Hitabeltislægðin Sandy myndaðist á Karíbahafi þann 22. október 2012 og átti eftir að slá allnokkur met. Tveimur dögum síðar varð Sandy að fyrsta stigs fellibyl og gekk á land á Jamaíka. Þótt miðja bylsins hafi ekki gengið yfir eyjuna Hispanjólu fylgdi storminum um 500 mm úrkoma á eynni og fórust rúmlega 100 á Haítí í aurskriðum og flóðum í kjölfarið.

Stormurinn hélt síðan í átt að Kúbu sem annars stigs fellibylur og olli gríðarlegu tjóni. Þaðan fór stormurinn að Bahamaeyjum og upp með austurströnd Bandaríkjanna. Sandy átti hins vegar eftir að valda mestu tjóni þegar stormurinn gekk á land í New Jersey á þessum degi fyrir sex árum.

Þegar stormurinn kom á land í Bandaríkjunum mældist loftþrýstingur 940 millibör, sem var met fyrir Atlantshafsstorm er hafði staðið í rúm 70 ár. Sjávarflóðin í New York náðu rúmum fjórum metrum og var þannig annað áratugagamalt met slegið.

Alls heimti Sandy líf 253 einstaklinga. Þar af fórust flestir í Bandaríkjunum, eða 131, og næstflestir á Haítí, 104. Talið er að eignatjónið sem stormurinn olli hafi numið um 66 milljörðum bandaríkjadala, andvirði um átta billjóna króna, og varð langmestur hluti tjónsins í Bandaríkjunum.

Þegar stormurinn reið yfir voru Bandaríkjamenn á fullu að undirbúa sig undir forsetakosningar þar sem Barack Obama freistaði þess að ná endurkjöri og atti kappi við Repúblikanann Mitt Romney. Ýmsir höfðu spáð því að Romney myndi hafa betur í þessum slag en allt kom fyrir ekki. Síðan þá hafa spekingar vestan hafs velt því fyrir sér hvort Sandy hafi tryggt Obama sigur, en hlé var gert á kosningabaráttunni og Obama vakti athygli fyrir vasklega framgöngu í kjölfar stormsins. Skoðanakannanir sýndu að um 80 prósent voru hrifin af viðbrögðum forsetans. Þegar stormurinn gekk á land hafði Romney mælst með forskot í könnunum en það breyttist um leið og storminn lægði.