Ég féll gersamlega fyrir vinnusöngvum þrælanna þegar ég fór að hlusta á þá,“ segir eyfirska söngkonan Guðrún Ösp Sævarsdóttir mezzosópran. „Fyrst byrjaði ég að kynna mér bandaríska lagahöfundinn Harry T. Burleigh og sögur af afa hans sem var þræll. Svo fór ég að grúska meira og eitt leiddi af öðru, ég er til dæmis búin að horfa á fullt af heimildarmyndum um þrælahald. Það er þó ekki fjölbreytt tónlist í þeim myndum, það virðast vera sömu lagahöfundarnir og oft sömu lögin sem kvikmyndagerðarmenn hafa fest í. En það eru til svakalega margir þrælasöngvar og mér fannst erfitt að velja inn í prógrammið mitt.“

Guðrún Ösp hefur haldið tvenna söngkonserta tileinkaða þrælunum og tónlist þeirra, ásamt Helgu Kvam píanóleikara, aðra fyrir norðan og hina í Hannesarholti við Grundarstíg. Á milli laga lýsir hún lífi fólks í ánauð og fjölskyldna þeirra á áhrifaríkan hátt. „Þetta er engin gleðitónlist og auðvitað syng ég oft annað, aríur og alls konar efni, til dæmis þegar ég kem fram á árshátíðum en mér finnst mest gaman að syngja lög sem bjóða upp á mikla tjáningu og túlkun og lög sem ég get sagt sögur í kringum.“

Tónskáldið Harry T. Burleigh (1866-1949) varð þekktastur fyrir þrælasöngvana, að sögn Guðrúnar Aspar. „Burleigh bjó til mörg önnur sönglög en þau hafa ekki náð sömu vinsældum. Hann var líka brautryðjandi í að útsetja vinnusöngvana fyrir einsöngvara og klassíska heiminn. Við höfum helst heyrt þá sungna sem gospel og kórtónlist en sjaldnar sem einsöngslög með klassísku yfirbragði. Undirleikurinn er oft dálítið erfiður hjá Burleigh, þannig að það er pínu erfitt að fylgja honum eftir en það sem er svo frábært við tónlistina hans er að hann nær svo vel fram grunninum, þegar maður leggur við hlustir, þá er eins og fólk sé að störfum.“

Söngkonan Guðrún Ösp býr í Eyjafirðinum austanverðum. Hún kveðst hafa lært söng í Tónlistarskólanum á Akureyri, hjá Michael Jóni Clarke og Daníel Þorsteinssyni, og vera nú á öðru ári í söngnámi í Háskólanum á Akureyri. En það er fleira en söngurinn sem hún fæst við. Hún er fangavörður á Akureyri og vinnur líka á Laugalandi, meðferðarheimili fyrir ungar stúlkur. Einnig fær hún til sín átta ára gamlan einhverfan dreng aðra hverja helgi og oftar ef þörf krefur. „Hann er yndislegur,“ tekur hún fram og kveðst búin að fá hann til sín í fjögur og hálft ár. „En ég er lærður hómópati,“ upplýsir hún í lokin.

[email protected]