Varla er hægt að hugsa sér landnám Íslands án súðbyrðingsins, né búsetu hér fyrstu þúsund árin. Fiskveiðar, flutningar og ferðalög yfir úthafið, allt byggðist á þessum bát,“ segir Sigurbjörg Árnadóttir um norræna súðbyrðinginn. Hann hefur verið tilnefndur á heimsminjaskrá UNESCO sem mikilvæg menningararfleifð, enda megi þekking á sögu hans og smíði ekki glatast. „Súðbyrðingarnir fela í sér taug við fortíð,“ bendir hún á.

Sigurbjörg segir súðbyrðinga víða til á söfnum á Íslandi og á Ísafirði hafi verið staðið best að því að varðveita þá á sjó. Hún segir súðbyrðingum enn siglt um flóa og firði á Íslandi og víðar á norrænum slóðum en sífellt fækki þeim sem kunni til verka þegar að viðhaldi þeirra komi. „Þetta er ævagamalt handverk en bæði í Noregi og Danmörku sækir fólk á öllum aldri þó námskeið í því, þar eru meðal annars ungar konur að smíða svona báta – og svo því sé til skila haldið hefur Síldarminjasafnið á Siglufirði haldið námskeið í viðgerð á súðbyrtum bát.“

Enn eigum við Íslendinga sem kunna handtökin við smíði súðbyrðinga, að sögn Sigurbjargar. Hún nefnir Hafliða Aðalsteinsson sem líklega sé einna þekktastur þeirra. „Það leynast bátasmiðir hér og þar, sá eini sem hefur útskrifast í þeirri grein frá Iðnskólanum á síðustu áratugum er Jón Ragnar Daðason, það reyndist erfitt að fá prófdómara fyrir hann. Á hinum Norðurlöndunum kenna lýðháskólar og iðnskólar bátasmíði og háskólinn í Tromsö er að reyna að koma sögunni og þekkingunni í kringum fagið á háskólastig.“

Sigurbjörg er formaður Vitafélagsins – íslenskrar strandmenningar og líka norrænu strandmenningarsamtakanna. Hún er fædd og uppalin í Svarfaðardal og er því spurð hvaðan henni komi áhuginn á ströndum, bátum og vitum. „Ég sá aldrei til hafs í uppvextinum, ætli það sé ekki ástæðan?“ svarar hún hlæjandi.

„Bjó líka fjórtán ár í frumskógum Finnlands sem jók líklega enn á þörfina fyrir víðáttu. Þá kom ég stundum með ferðahópa til Íslands. Landsmenn voru að uppgötva hálendið á þeim tíma og ef ég ráðfærði mig við þá reyndu allir að stugga mér til fjalla eins og sauðkind á vori. En ferðafólkið mitt vildi frekar fræðast um hvar og hvernig við höfðum búið og það vakti áhuga minn á okkar sögu og lifnaðarháttum. Við vorum ekki öll Fjalla-Eyvindar.“

Heimkomin frá Finnlandi kveðst Sigurbjörg hafa verið að vinna að Evrópuverkefni um ferðaþjónustu í dreifbýli, meðal annars með formanni norska vitafélagsins. Þá hafi hún verið beðin að benda á einhvern á Íslandi sem hefði áhuga á að sitja fyrstu norrænu strandmenningarráðstefnuna 2003. „Ég fékk litlar undirtektir svo ég ákvað að stofna vitafélag sjálf og bað Norðmenn um góð ráð. Þeir bentu mér á að vera í góðu samstarfi við Fornleifanefnd, Húsafriðunarnefnd, Siglingastofnun og söfn og þau heilræði komu sér vel. Orðið strandmenning var ekki til í íslenskri orðabók á þessum tíma og allir tengdu það við suðrænar slóðir. Í dag spyr enginn hvað það þýði. Enda er strandmenning grunnur að okkar norrænu menningu.“