Ég flutti til Íslands 1976. Fyrst ferðaðist ég reyndar um landið sem túristi bæði 1973 og 1974, þá fékk ég þessa Íslandsveiki sem getur gripið Þjóðverja. Ég er svo mikið náttúrubarn, mér fannst þetta vera stórfenglegt land og finnst enn,“ segir Monika Abendroth. Hún gerðist strax hörpuleikari í Sinfóníunni og hefur starfað sem leiðsögumaður frá 1980. „Þetta var frábær blanda fyrir mig. Í hljómsveitinni var nýtt prógramm í hverri viku en í sumarfríinu dásamlegt að fara á flakk og kúpla sig frá því að æfa nýjar nótur. Eftir sumartörnina hlakka ég svo alltaf til að fara í tónlistina.“

Nú kveðst hún komin á eftirlaun hjá hljómsveitinni en spila á hörpuna við hin ýmsu tækifæri, meðal annars með Páli Óskari.

Alltaf kveðst hún halda upp á afmælið sitt þann mánaðardag sem hún fæddist og ætla að bjóða fjölskyldu og vinum í huggulegt kvöldpartí. „Reyndar er ég búin að halda upp á það með öðrum hætti því fjölskyldan mín, dóttir, tengdasonur og börn buðu mér í yndislega hálendisferð um hvítasunnuna. Tengdasonur minn á vel búinn jeppa og er framúrskarandi bílstjóri. Við vorum í ólýsanlegri fegurð innan um jökla, auðn og fjöll og sólin skein. Þegar ég kom heim var ég að hugsa um að fara í göngutúr en fékk mig ekki til þess, var bara með hugann á þessum stað.“

Monika á eina dóttur barna. „Í Þýskalandi var algeng hugsun kvenna að annaðhvort ættu þær barn eða væru í vinnu og ég var ekki tilbúin til að leggja vinnuna mína á hilluna fyrir barneignir. Svo þegar ég flutti hingað 1976 voru tveggja til fimm barna mæður í Sinfóníunni, þá áttaði ég mig á að hægt var að gera hvort tveggja og varð svo lánsöm að eignast þessa dóttur. Hún er besta gjöf í heimi, á tvo stráka og ég nýt ömmuhlutverksins í botn.“