Reykjavíkurborg veitti viðurkenningar nú í vikunni fyrir vel heppnaðar endurbætur gamalla húsa og fallegar stofnana-, fyrirtækja- og fjölbýlishúsalóðir. Þrjú hús urðu fyrir valinu: að Fríkirkjuvegi 3, Nýlendugötu 24 og Selvogsgrunni 23. Tvö þau fyrrnefndu eru frá upphafi 20. aldar og tilheyra stíl sem kallaður hefur verið hinn íslenski bárujárnssveitserstíll. Það þriðja er teiknað 1957 af Sigvalda Thordarson og er í módernískum stíl. Öll teljast þau góð dæmi um byggingarlist síns tíma og endurbætur á þeim þykja gerðar af virðingu og kostgæfni.

Fjölbýlishúsalóðirnar að Brautarholti 7 og Einholti 8-12 fengu viðurkenningar fyrir snyrtilegan frágang og fleira og lóðin að Laugavegi 120, Center Hótel Miðgarður, fyrir aðlaðandi útisvæði þar sem klöppin í holtinu skipar sérstakan sess.