Upphaflega átti að vera allt önnur sýning hér í Hönnunarsafninu á þessum tíma. Hennar uppruni var framandi, en sá póll var tekinn í hæðina að leggja frekar áherslu á íslenskt efni nú á þessum sérstöku tímum og hvað er íslenskara en ullin? Það fyrsta sem fólki dettur í hug er eflaust handprjónaðar peysur en ullin er notuð í svo margt fleira og við vildum frekar beina sjónum þangað. Því leituðum við uppi hönnuði, handverksfólk og framleiðendur sem nota íslenska ull á margvíslegan hátt enda býr hún yfir óendanlegum möguleikum, þó um náttúrulegan og klassískan efnivið sé að ræða.“

Það er Signý Þórhallsdóttir hönnuður sem hefur orðið. Hún er annar tveggja sýningarstjóra hinnar nýju sýningar í Hönnunarsafninu, 100% ull. Hinn er líka hönnuður og heitir Birgir Örn Jónsson.

Meðal varnings á sýningunni er fatnaður úr ullarefnum. Þó að verksmiðjuvefnaður heyri sögunni til hér á landi þá eru enn prjónaverksmiðjur og ullarvinnslufyrirtækið Ístex er með mikla framleiðslu. Fatahönnuðurinn Magnea Einarsdóttir sýnir líka yfirhafnir úr 100% ull og Kormákur og Skjöldur kynna framleiðslu á vaðmáli (tweed) sem er búið til úr íslenskri ull og verða með fatnað úr því til sýnis.

„Hún Ásthildur Magnúsdóttir vefari sat úti í glugga á safninu í vetur þegar allt var lokað vegna COVID-19 og óf röggvarfeld sem er hér núna og hún er líka með fræðsluborð þar sem hún sýnir mismunandi gerðir af ull sem ekki er búið að vinna úr,“ lýsir Signý. Hún vekur líka athygli á nýrri afurð frá hljóðvistarfyrirtækinu Kula by Bryndís. Sú afurð er þó ekki kúlulaga en hún er gerð úr ull, eins og kúlurnar marglitu sem víða hafa verið settar upp á undanförnum árum til hljóðdempunar. Þessi er á heilum vegg á sýningunni og ætti víða heima þar sem bæta þarf hljóðvist.

„Sýningin 100% ull mun verða uppi fram til 15. nóvember og hér verða haldnar smiðjur fyrir alla fjölskylduna og sunnudagsleiðsagnir meðan á henni stendur. Það verður allt auglýst á heimasíðu safnsins og Facebook,“ segir Signý og bætir við: „Hingað verður líka boðið skólahópum, því verið er að taka í notkun nýjan sal þar sem auðvelt er að vera með fræðslu og aðra dagskrá.“

Hún bendir á að verkin á sýningunni séu ólík þó efniviðurinn sé í grunninn allur af íslenskum kindum og segir ánægjulegt að upplifa hversu mikil fjölbreytni sé í því sem fólk er að búa til úr þessari eðalafurð, ullinni.