Séra Þórhallur Heimisson er sextugur í dag. Hann fagnar því ásamt fjölskyldunni með garðveislu við heimilið í Uppsölum.

„Ég hef alltaf haft gaman af að halda upp á afmælið mitt og hitta fjölskyldu og vini, hélt upp á bæði fertugs- og fimmtugsafmælin og á skemmtilegar minningar frá þeim. Þannig að ég er mikill afmælisstrákur,“ segir hinn sextugi prestur Þórhallur Heimisson glaðlega og bætir við: „Þegar ég varð fertugur keyrðum við að Dettifossi og ég man eftir yndislegum degi þar í íslenskri sumarsól.“

Að vera orðinn sextugur þykir Þórhalli frekar fyndið. „Þegar ég var yngri fannst mér sextugir algerir ellibelgir en er sjálfur út og suður og trúi því tæplega að ég sé orðinn svona gamall. Upplifi mig ekki þannig. Faðir minn varð bara 63 ára og sextugur var hann orðinn mjög veikur, átti erfitt með gang og allt slíkt. En mamma er áttræð og við héldum upp á það í vor á Íslandi. Hún er allra manna hressust, ótrúlega kröftug og dugleg, hleypur um eins og algert unglamb og ég vonast til að hafa erft eitthvað af þeim genum.“

Fyrsti dagur í sumarfríi

Þórhallur starfar sem prestur í Uppsölum í Svíþjóð. Hverju sætir það? „Ég var hér í framhaldsnámi á sínum tíma og tók þá starfsréttindi í sænsku kirkjunni um leið. Síðan hef ég verið hér með annan fótinn af ýmsum ástæðum, skóla, vinnu og félögum, og nú sem prestur í fjögur ár. Við erum fjórir prestar sem vinnum saman í einum söfnuði með átta kirkjur. Síðustu mánuði hefur verið mikið að gera, einkum í jarðarförum, en þú hittir á mig á fyrsta degi í sumarfríi, út af afmælinu!“

Hann segir fyrirkomulag kirkjulegra athafna líkt og hér heima. „Sænska kirkjan er ívið kaþólskari á margan hátt en sú íslenska, meira skraut og meiri söngur – en báðar eru lúterskar og í grunninn er þetta eins.“

Þá er Þórhallur þekktur fyrir hjónabandsráðgjöf sína, skyldi hann fást við hana líka í Svíþjóð? „Nei, ég hef haldið mig við Ísland í þeim efnum. Þetta eru svo persónuleg mál og ég tengist fólki heima á annan hátt en hér. En námskeiðin rak í strand vegna Covid og eru í biðstöðu enn, eins og svo margt.“

Fjölskyldan útivistarfólk

Inntur eftir áhugamálum segir Þórhallur ferðalög þar ofarlega á blaði. „Fram að Covid var ég oft í leiðsögn með Íslendinga til Indlands, Miðausturlanda, Nepal og víðar. Sex ferðir voru bókaðar þegar kófið skall á og ég sé ekki fram á að þær verði farnar á næstunni.“

Rithöfundarstarf á líka vel við Þórhall. „Að fást við að skrifa og gefa út bækur er eitthvað sem ég dunda mér við. En svo erum við í fjölskyldunni mikið útivistarfólk, við hjólum, erum á skíðum og göngum þannig að við hreyfum okkur mikið, það er sameiginlega áhugamálið okkar,“ lýsir hann.

Stór hluti fjölskyldunnar býr í Uppsölum líka. „Konan mín er prestur líka og starfar hér, sonur okkar sem er með okkur er að byrja í menntaskóla og dóttir okkar starfar sem læknir í borginni. Við eigum tvær dætur í viðbót, önnur er rithöfundur og kennari heima á Íslandi og hin er nýorðin læknir, ég býst við að hún sé á leiðinni hingað til dvalar.“

Afmælinu í dag kveðst Þórhallur ætla að verja með eiginkonu, börnum, móður, þremur tengdasonum og þremur barnabörnum. „Við ætlum að halda hér mikla útigrillveislu í garðinum og síðan skreppa í Dalina og dvelja þar í viku. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að konan mín á afmæli á morgun, 31. júlí – það er ekki stórafmæli í ár en við munum fagna því í fjallakofa.“