Afmælisbarn dagsins er Ólafía Hrönn Jónsdóttir leikkona sem fagnar sextíu ára stórafmæli sínu í dag. Þegar Fréttablaðið náði á hana var hún nýkomin af jólamarkaði í Edinborg þar sem hún fékk meðal annars dýrindis útsýni yfir borgina úr parísarhjóli.

„Þetta er afmælisferð og ég er hérna með krökkum og tengdabörnunum,“ segir Ólafía sem segist ekki vera mikið fyrir afmælishefðir. „Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef farið til útlanda til að halda upp á afmælið mitt. Ég hélt upp á stórafmæli bæði fimmtíu og fjörutíu ára með stórum veislum en ég nennti ekki að standa í því núna. Mér finnst þetta alveg rosalega gaman og Edinborg er alveg yndisleg borg. Ég á eftir að koma hingað aftur.“

Skoskar skreytingar

Tímamótin segir Ólafía ekkert annað en fagnaðarefni.

„Þegar komið er á þennan aldur þá þakkar maður fyrir hvert ár,“ segir hún og hlær. „Talan skiptir engu máli, það er bara frábært að fá að vera hérna áfram.“

Það er nóg að gera hjá Ólafíu sem tekur þátt í tveimur sýningum í Þjóðleikhúsinu um þessar mundir.

Jólaboðið.

„Ég er annars vegar í Sjö ævintýrum um skömm sem átti að hætta núna um jól en aðsóknin var svo fín og áhorfendur hrifnir að það á að reyna að halda áfram eitthvað eftir áramót,“ útskýrir hún. „Svo er ég líka í Jólaboðinu sem við keyrðum af stað með á aðventunni í fyrra en þurftum að hætta vegna Covid, en erum nú byrjuð aftur.“

Hvað jólaboð varðar almennt segist Ólafía vera temmilega mikil jólamanneskja.

„Já, ég myndi segja það. Mér finnst gaman að skreyta og það er stemning í þessu,“ segir hún ánægð með jólastemninguna hjá Skotunum. „Mér sýnist þeir vera ansi góðir í þessu. Borgin er í það minnsta rosalega fallega skreytt.“

Risabrúða Lionsklúbbsins

Í æsku boðaði 7. desember alltaf tvíþættan fögnuð í fjölskyldu Ólafíu sem fagnaði afmæli á sama degi og faðir hennar.

„Að eiga sama afmælisdag og pabbi sinn er pínu spes. Þegar hann hélt upp á afmælin sín var eins og ég væri líka að halda upp á afmælið mitt,“ segir hún og rifjar upp tíu ára afmælið sitt þar sem hún bjó á Höfn í Hornafirði. „Þegar pabbi varð fimmtugur hélt hann risastórt boð þar sem Lionsklúbburinn splæsti í risadúkku handa mér. Þetta þótti alveg rosalega flott og ég varð alveg steinhissa.“