„Ég myndi nú kalla það gleði­efni að fá að lifa svona lengi og taka þátt í þessu öllu saman,“ segir söng­konan Sigga Bein­teins sem fagnar sex­tugs­af­mæli í dag. „Maður þakkar bara fyrir hvert ár sem maður fær svo ég er bara mjög sátt.“

Sigga fagnar tíma­mótunum á Spáni í nánast full­skipuðum syst­kina­hóp sínum.

„Það vill þannig til að við erum næstum öll hér syst­kinin, sex af sjö, og svo makar, svo við förum eitt­hvað flott út að borða og gerum eitt­hvað skemmti­legt í til­efni dagsins.“

Syst­kina­strollan er í Villa­martin sem er vin­sæll á­fanga­staður hjá Ís­lendingum. Sigga segir að­stæður í hlýrri kantinum.

„Það er mjög heitt í dag, þetta teygir sig alveg upp í 35 gráður og það er komin gul við­vörun í dag og á morgun. En maður er bara í sund­lauginni eða inni í loft­ræstingunni, það er ekkert annað hægt að gera,“ segir hún og hlær. „Við komum örugg­lega eitt­hvað smá rauð til baka.“

„Maður er bara í sund­lauginni eða inni í loft­ræstingunni, það er ekkert annað hægt að gera“

Af af­mælis­minningum stendur fimm­tugs­af­mælið upp úr.

„Þá hélt ég ris­a­tón­leika, stórt af­mæli og mikla garð­veislu,“ segir Sigga, sem fagnaði fjöru­tíu ára söngaf­mæli sínu fyrr á árinu. „Það er sem betur fer nóg um að vera. Ég er farin að undir­búa jóla­af­mælis­tón­leikana sem verða með af­mælisí­vafi af fer­tugs­ferlinum. Svo verðum við Guð­rún Gunnars og Jógvan Han­sen með tón­leika í Eld­borg 2. októ­ber sem við höfum verið með í Salnum í Kópa­vogi í tíu ár en á­kváðum að stækka að­eins við okkur. Það er allt saman vel bókað inn í haustið.“