„Ég myndi nú kalla það gleðiefni að fá að lifa svona lengi og taka þátt í þessu öllu saman,“ segir söngkonan Sigga Beinteins sem fagnar sextugsafmæli í dag. „Maður þakkar bara fyrir hvert ár sem maður fær svo ég er bara mjög sátt.“
Sigga fagnar tímamótunum á Spáni í nánast fullskipuðum systkinahóp sínum.
„Það vill þannig til að við erum næstum öll hér systkinin, sex af sjö, og svo makar, svo við förum eitthvað flott út að borða og gerum eitthvað skemmtilegt í tilefni dagsins.“
Systkinastrollan er í Villamartin sem er vinsæll áfangastaður hjá Íslendingum. Sigga segir aðstæður í hlýrri kantinum.
„Það er mjög heitt í dag, þetta teygir sig alveg upp í 35 gráður og það er komin gul viðvörun í dag og á morgun. En maður er bara í sundlauginni eða inni í loftræstingunni, það er ekkert annað hægt að gera,“ segir hún og hlær. „Við komum örugglega eitthvað smá rauð til baka.“
„Maður er bara í sundlauginni eða inni í loftræstingunni, það er ekkert annað hægt að gera“
Af afmælisminningum stendur fimmtugsafmælið upp úr.
„Þá hélt ég risatónleika, stórt afmæli og mikla garðveislu,“ segir Sigga, sem fagnaði fjörutíu ára söngafmæli sínu fyrr á árinu. „Það er sem betur fer nóg um að vera. Ég er farin að undirbúa jólaafmælistónleikana sem verða með afmælisívafi af fertugsferlinum. Svo verðum við Guðrún Gunnars og Jógvan Hansen með tónleika í Eldborg 2. október sem við höfum verið með í Salnum í Kópavogi í tíu ár en ákváðum að stækka aðeins við okkur. Það er allt saman vel bókað inn í haustið.“