„Þetta minnir mig svo­lítið á það þegar ég varð þrí­tug, en samt er ég í allt annarri að­stöðu,“ segir Kristín Ómars­dóttir, rit­höfundur og skáld, sem fagnar sex­tugs­af­mæli í dag. „Ég fór að­eins að hugsa þegar ég varð þrí­tug og ég er líka að hugsa núna.“

Mikil­vægi tíma­mótanna segir Kristín til­komið vegna tuga­kerfisins.

„Ég er með tíu fingur og hef lifað í sex ára­tugi,“ út­skýrir hún. „Ef ég væri með sjö fingur þá væri þetta ekki stór­mál, en þá væri sjö­tíu rosa­lega stórt.“

Þá er mikil­vægið eigin­lega tvö­falt þar sem að tólf gengur líka upp í sex­tíu.

„Nú er ég búin að lifa fimm dúsínur og sex tugi svo að þetta er eigin­lega risa­stórt af­mæli,“ segir hún. „Það er ekki oft sem tólf og tíu ganga upp í sömu tölu. Það er eigin­lega bara þegar maður er sex­tugur og svo aftur hundrað og tuttugu ára.“

Blaða­maður hripar í kjöl­farið x við dag­setninguna 24. septem­ber 2082 á verk­efna­listanum.

Mara­þon­fögnuður í Fen­eyjum

Kristín hefur engin sér­stök á­form um að fagna dúsínunum fimm en hún tók for­skot á sæluna í Fen­eyjum.

„Ég hélt upp á það með vin­konu minni en við erum báðar í Voginni. Hún er fimm­tug, ég er sex­tug og vin­átta okkar er tví­tug,“ segir Kristín um af­mælin þrjú. „Við fórum til að sjá Tví­æringinn og sáum líka fullt, fullt af mynd­list.“

Það eru margir sem líta á lífið sem eins konar mara­þon en Kristín er ekki ein þeirra.

„Ég heyrði það frá vin­konu minni að fólk fari í ferða­lag og eyði alveg rosa­lega miklum peningum fyrir að hafa náð svona langt í mara­þoninu,“ segir hún.

„Ég verð kannski með bók á næsta eða þar­næsta ári – eða ég veit það ekki alveg. Þegar maður er sex­tugur þá er ekki planað svona langt fram í tímann“

Sorg­mædd yfir engu

Nýjasta bók Kristínar, smá­sagna­safnið Borg bróður míns, kom út í fyrra. Hún er nú önnum kafin við að skrifa bók og bækur en það komi ekkert út frá henni í ár.

„Ég verð kannski með bók á næsta eða þar­næsta ári – eða ég veit það ekki alveg. Þegar maður er sex­tugur þá er ekki planað svona langt fram í tímann,“ segir hún. „Þessi bók er viða­mikil og um svo margt, en ekkert endi­lega rosa­lega þykk.“

Að lokum hverfur Kristín aftur í minningu sína af þrí­tugs­af­mælinu.

„Ég varð rosa­lega sorg­mædd með jafn­aldra vin­konu minni þar sem við sátum úti á bekk, báðar ný­orðnar þrí­tugar,“ segir Kristín og skellir upp úr. „Okkur fannst þetta ekki gaman og mér þótti þetta rosa­lega erfitt í níu mánuði, en þá hætti mér allt í einu að finnast þetta erfitt. En ég gleymi því ekki þegar við sátum þarna tvær og hún var með barna­vagn. Það var sól og voða fal­legt veður, en svalt svona eins og það er á haustin. Voða fal­legt en við rosa­lega sorg­mæddar yfir engu.“