Tímamót

Fagna uppskeru af öllu tagi

Slægjufundur hefur verið árlegur viðburður í Mývatnssveit fyrsta vetrardag um margra áratuga skeið. Þeirri hefð verður viðhaldið í dag. Böðvar Pétusson er prímus mótor.

Það er hefð fyrir almennum söng í Mývatnssveit og frá þeirri hefð verður ekki vikið í dag, að sögn Böðvars. Mynd/Hrefna

Við erum á lokametrunum að gera og græja,“ segir Böðvar Pétursson, bóndi í Baldursheimi í Mývatnssveit og starfsmaður Landsvirkjunar, þegar forvitnast er um undirbúning Slægjufundarins 2018. Það er samkoma sem haldin er í Skjólgarði í dag, hefst 14.30 og stendur í tvo til þrjá tíma. Svo er ball í kvöld.

Um árlega samkomu Mývetninga er að ræða sem á sér langa sögu. Fyrstu áratugina eftir að Skjólbrekka var tekin í notkun og jeppaöldin var gengin í garð voru gullár þessara skemmtana, samkvæmt heimildum. „Slægjuræðan“ – aðalræða dagsins var lengi nokkurs konar annáll árferðis og uppskeru og viðburðum samfélagsins var fléttað inn í hana.

En þýðir það að bændur hafi staðið við slátt fram í október að hátíðin skuli kennd við heyskap en ekki réttir og önnur haustverk?

„Nei, ég held það tengist því nú ekki beint. Fólk var bara að gera sér dagamun á skilum sumars og veturs, fagna uppskeru af öllu tagi og hressa sig fyrir veturinn,“ svarar Böðvar sem segir aðeins misjafnt milli ára hversu margir mæti.

„Það er opið hús og þeir sveitungar koma sem hafa lausa stund og áhuga. Þarna er fólk á öllum aldri, frá eins árs og yfir nírætt. Reyndar verður að viðurkennast að karlpeningurinn hefur ekki verið eins duglegur að mæta og kvenþjóðin. Karlarnir þykjast sumir hverjir þurfa að nota daginn til að skjóta rjúpu eða fara í eftirleitir,“ segir Böðvar. „Það hallar á þá varðandi mætingu, þar gætu þeir staðið sig betur.“

Síðan Böðvar man eftir sér hefur verið kaffihlaðborð á samkomunni og svo hin ýmsu skemmtiatriði.

En hver verður með slægjuræðuna í dag?

„Það verður Ásta Kristín Benediktsdóttir bókmenntafræðingur, hún er búsett í Reykjavík en er frá Arnarvatni. Ólst þar upp.“

Böðvar segir að ýmist íbúar í sveitinni eða brottfluttir haldi hina árlegu ræðu, brottfluttir komi oft með aðeins annan vinkil.

Skyldu þeir þá rifja upp eitthvað gamalt?

„Ekkert endilega. Við gáfum Ástu Kristínu algerlega frjálsar hendur með það um hvað ræðan snerist, það skiptir meira máli að hún sé skemmtileg og góð!“

Mývetningar eru þekktir fyrir að vera söngelskir og Böðvar segir þá alveg pottþétt taka lagið í dag. „Það er löng hefð fyrir því að allir standi upp og syngi saman á slægjufundinum. Við tökum örugglega nokkrar tarnir í því.“

Svo er það hljómsveitin Lúxus frá Húsavík sem leikur fyrir dansi á ballinu í kvöld, að sögn Böðvars. „Lúxus er sveit sem var ráðin í fyrra en mætti ekki öll því einn spilari datt úr skaftinu og annar flúði til útlanda. Nú ákváðum við að gefa henni annan séns og eigum von á góðu stuði.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Tímamót

Margrét Þórhildur verður drottning

Tímamót

Jafnrétti sinnt í Kópavogi

Tímamót

Fjallað um hinn nýja reka á Hornströndum

Auglýsing

Nýjast

Íslenska óperan vígð með viðhöfn

Fyrsta konan kjörin íþróttamaður ársins

Fyrsti kafli tónverksins táknar eðlilegt hitastig

Hinsegin kórinn opinn fyrir alla með opinn huga

Frystihúsið Ísbjörninn hefur starfsemi

Lögbirtingablaðið verður 110 ára

Auglýsing