Kómedíuleikhúsið fagnar tuttugu ára afmæli sínu um þessar mundir og státar sig þar með af þeim forláta heiðri að vera næstelsta atvinnuleikhús landsbyggðarinnar. Grínararnir leggja leið sína suður til Hafnarfjarðar um helgina þar sem stendur til að sýna brúðuleikrit um enga aðra en sjálfa Bakkabræður.

„Þetta er bráðfjörugt verk, eins og er við hæfi þegar þessir frægustu bræður Íslandssögunnar eru til umfjöllunar,“ segir Elfar Logi Hannesson sem rekur Kómedíuleikhúsið og leikur í sýningunni. „Við erum stolt af því að vera leikhús landsbyggðarinnar þótt við kíkjum af og til í bæinn. Við pössum okkur að hætta okkur ekki of langt og þess vegna er fínt að vera bara í Hafnarfirðinum!“

Elfar Logi segir að kveikjan að sýningunni hafi komið frá barnabörnunum.

„Ég hef lengi haft áhuga á að gera eitthvað við þessa sögu í leikhúsinu, en það sem rak mann út í þetta var hvað ég varð hissa þegar ég nefndi Bakkabræður við barnabörnin mín sem vissu ekkert hverjir þetta væru,“ segir Elfar Logi. „Ef það er einhver tilgangur með leikhúsinu þá er það auðvitað að miðla þessum sagnaarfi til framtíðarinnar.“

„Gísli, Eiríkur, Helgi. Faðir vor kallar kútinn!“

Giftur galdrakonu

Sýningin er skipuð hluta úr landsliði listafólks en tónlistin í verkinu er samin og flutt af gítarleikaranum Birni Thoroddsen. Honum innan handar er engin önnur en Diddú sem fer með hlutverk syngjandi sögumanns. Þá fer Sigurþór A. Heimisson með leikstjórn og Elfar Logi sjálfur sér um að gæða brúðurnar lífi. Þá er óupptalinn brúðuheimurinn sjálfur, en listakonan Marsibil G. Kristjánsdóttir býr til brúðurnar og leikmyndina sömuleiðis.

„Hún Marsibil er algjör galdrakona,“ segir Elfar Logi um eiginkonu sína sem hann segir að stýri öllu saman. „Hún hefur gert brúður og leikmyndir fyrir margar sýningar hjá okkur en ég er ekki frá því að þetta sé það allra flottasta sem hún hefur gert.“

Elfar Logi segir að brúðunum sé best lýst með viðbrögðum barna eftir sýninguna.

„Þá fá krakkarnir að hitta bræðurna og eru oftast hissa á því hver ég sé og hvað ég sé að gera þarna,“ hlær hann. „Þetta er töfrum líkast.

Ungir sem aldnir

Sýningar á verkinu hófust í Haukadal í sumar þar sem Elfar Logi segir að áhorfendahópurinn hafi stundum komið skemmtilega á óvart.

„Það mætti mikið af fullorðnu fólki sem var ekkert endilega með börn með sér,“ segir hann. „Þetta er ekkert síður fyrir fullorðna. Við erum aldrei of gömul til að fara í leikhúsið svo ég mæli með því að eldra fólk mæti til að rifja upp barnið í sjálfu sér.“

Sýningin hefst klukkan 13 í Gaflaraleikhúsinu á sunnudag.