Sinfóníuhljómsveit áhugamanna sem stofnuð var 1990 býður upp á afmælistónleika í Seltjarnarneskirkju á laugardag og flytur þar verk eftir Bach og Beethoven.

„Við freistum þess nú að hefja tónleikahald eftir hlé,“ segir Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og sellóleikari í Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, um veglega afmælistónleika í Seltjarnarneskirkju 29. maí. Þá átti að halda í fyrra þegar sveitin var þrítug en var frestað vegna heimsfaraldursins. Á efnisskrá er Brandenborgarkonsert númer 6 eftir Bach og Sinfónía númer 1 eftir Beethoven. Stjórnandi verður Oliver Kentish.

„Ég held það séu bara tíu manns í Brandenborgarkonsertinum, flestum er gefið frí, meira að segja fiðluleikurunum, sem er mjög óvenjulegt í svona hljómsveit,“ lýsir Páll, sem var einn af stofnendum sveitarinnar 1990. En hversu fjölmenn er hún? „Við mönnum hana eins og þarf þegar við flytjum eitthvað. Flest erum við um 60 og erum svo gjarnan í samstarfi við kóra svo oft erum við mörg á sviði. Nú er samt enginn kór, við erum bara að fikra okkur af stað eftir COVID. Byrjuðum að æfa fyrir tveimur mánuðum, eftir því sem reglur leyfðu. Urðum að fara mjög hægt af stað en stefndum að því að vera tilbúin þegar losnaði um samkomutakmarkanir og það er núna, þannig að þetta var rétt skipulagt.“

Páll tekur undir það að í sveitinni sé fólk með ríka spádómsgáfu. „Þetta er fjölbreytilegur hópur fólks úr öllum stéttum og á öllum aldri,“ segir hann og hrósar stjórnandanum Oliver fyrir að ná að stilla hann saman. „Það er ekki öllum gefið að halda utan um svona hóp sem er þó skemmtilegur að vinna með. Við æfum reglulega eitt kvöld í viku, allir koma þreyttir eftir vinnu og fara heim glaðir og ánægðir. Þetta er eiginlega eina hléið sem við höfum tekið á 30 ára ferli. Í venjulegu árferði eru haldnir fimm til sex tónleikar á ári, þannig að alltaf er eitthvað að stefna að og allt er það metnaðarfullt,“ lýsir Páll og bætir við að Seltjarnarneskirkja sé heimahöfn sveitarinnar.

Tónleikarnir hefjast klukkan 16 á laugardaginn og ókeypis er inn, en gestum er boðið að styrkja starf sveitarinnar með frjálsum framlögum.