Veisluhöldin verða innan marka og óverulegri en efni stóðu til. Bara lítið boð heima hjá mér fyrir þá nánustu. Ég ætla ekki að brjóta neinar reglur í samkomubanni,“ segir Hildigunnur Þráinsdóttir, leikari og markaðsstjóri, um hátíðahöld í tilefni fimmtugsafmælisins sem er í dag. „Mér finnst þetta samt merkilegasta afmælið á lífsleiðinni og var búin að plana veislu en það passar ekki núna. Ég fagna bara meira þegar ég verð fimmtíu og eins.“

Hildigunnur ólst upp á Akureyri en er flutt suður yfir heiðar. Hún kynntist ung leiklistinni og gerði sig gildandi í þeirri grein, bæði á sviði og tjaldi en segist lítið hafa komið nálægt henni síðustu ár. „Ég var í litlu hlutverki í Ófærð á sínum tíma. Mér finnst voða gaman þegar slík tækifæri koma upp og frábært að hitta fyrrverandi starfsfélaga, en ég er alveg komin út úr þessu og í annað.“

Þetta annað er nefnilega dálítið annasamt, hefur að minnsta kosti verið það síðustu mánuði því Hildigunnur er markaðsstjóri í Heimkaupum. Verslun þar hefur stóraukist síðan COVID-19 kom upp. „Það hefur verið brjálað að gera,“ segir Hildigunnur og viðurkennir að henni finnist gaman í hasar en vildi óska að þessi væri af öðrum ástæðum en hann er. „Ég hef heldur ekki fengið að taka þátt í honum á gólfinu því við sem erum á skrifstofunni vinnum úti í bæ og megum ekki koma inn í vöruhúsið, þar sem langmestur atgangur hefur verið. En við höfum auðvitað líka þurft að vinna hratt og láta hendur standa fram úr ermum til að bregðast við aðstæðunum, kaupa nýjan kæli, fjölga starfsfólki og afhendingartímum. Það hefur tekist býsna vel.“

Hildigunnur segist hafa verið markaðsstjóri hjá Heimkaupum í fimm ár. „Ég fór í þetta fyrir hálfgerða tilviljun. Var að vinna sjálfstætt í bókabransanum og vildi bæta við mig vinnu, var þá ráðin hér sem textaritstjóri, svo fór ég inn í markaðsmálin smám saman og varð markaðsstjóri. Þetta var allt mjög óvænt. Ég þurfti að vera fljót að setja mig inn í það sem við átti hverju sinni og allt hefur gengið vel. Það er mikið búið að gerast, hver dagur skiptir máli, maður þarf alltaf að vera á tánum og tíminn hefur þotið áfram.“

En að það yrði allt í einu svona vinsælt að fá vörurnar sendar heim, kveðst Hildigunnur ekki hafa séð fyrir. „Verslun á netinu hefur bara allt í einu tekið stökk fram í tímann – hlaupið yfir nokkur ár.“ Heimkaup er í Kópavogi og Hildigunnur segir þau eiga marga fastakúnna víðs vegar um land. En þó mikið sé að gera hlýtur markaðsstjórinn að fá sumarfrí. Jú, Hildigunnur að að sjálfsögðu búin að skipuleggja það. „Ég ætla að ferðast. Er búin að panta hús í eina viku á Súðavík og ætla líka að heimsækja Trékyllisvík og Norðurfjörð á Ströndum. Svo fer ég til Akureyrar en það eru engar utanlandsferðir í kortunum.“