Sölvi Sveinsson svarar símanum í Skagafirði, enda er þar útgáfuhóf í dag hjá Sögufélagi Skagfirðinga vegna nýrrar bókar Sölva um Eyþór Stefánsson tónskáld sem hann kynntist sjálfur í uppvextinum. „Eyþór og Sissa leigðu hjá foreldrum mínum fyrstu búskaparár sín. Það var áður en ég fæddist en það var alltaf samgangur milli heimilanna, skipst á jólaboðum og hist til að spila.“ – Og syngja væntanlega? „Ja, ekki ég, ég er laglaus en Eyþór var viðloðandi kirkjukór í 60 ár, byrjaði þar ellefu ára gamall, söng þá altrödd en svo tenór þegar hann eltist.“

Eyþór Stefánsson lifði næstum alla 20. öldina, fæddist 1901 og dó 1999. „Hann samdi músík frá 1920 fram yfir 1970 – líklega um 70 lög,“ segir Sölvi. „Milli 30 og 40 hafa verið gefin út en fjögur til fimm þeirra eru oftast sungin, það eru Lindin, Mánaskin, Bikarinn og Nóttin með lokkinn ljósa. Eyþór var hrifinn af nýrómantískri ljóðlist og alls kyns dulúð lá honum nær hjarta. Hann var líka mikilvirkur í Leikfélagi Sauðárkróks, leikstýrði þar 32 sýningum og um 20 fyrir önnur félög í bænum. Auk þess lék hann 118 hlutverk, eitt í Reykjavík en hin á Króknum.“

Ekki hefur hann lifað á þessu? „Hann vann lengi sem skrifstofu- og verslunarmaður og var svo ráðinn til skólanna sem söngkennari og félagsmálafulltrúi. En sá illa og við krakkarnir gátum gert allan andsk … hjá honum, hann sá það ekki!“

En var ekki mikið verk að skrifa um hann bók? „Jú, ég ætlaði að skrifa um hann æviþátt í tímaritið Skagfirðingabók en sá strax að ég myndi sprengja þann ramma eins og skot og hef verið að dunda við bókina, með öðru, í sex ár. Á síðasta sprettinum var ég líka að endurskrifa smásögur sem Sæmundur var að gefa út eftir mig og það var svo gott að hoppa á milli. Þegar maður skrifar ævisögu ráða heimildirnar ferðinni en þá var fínt að fara yfir í smásögurnar þar sem ég gat skrifað það sem mér sýndist!“ ■