Það er að tínast hingað fólk. Þetta verða örugglega 140 til 150 manns. Gömlu félagarnir úr fótboltanum og aðrir vinir og vandamenn,“ segir Eyjólfur Sverrisson, fyrrverandi atvinnumaður í fótbolta sem er fimmtugur í dag og heldur upp á það. Hann svarar símanum á óðali sínu að Skefilsstöðum á Skaga. „Við tökum örugglega í bolta og hér verða hinar ýmsu keppnir í gangi. Svo er víkingaklæðnaður skilyrði. Það er engum hleypt inn á svæðið nema í víkingabúningi, það gildir um bæði kyn.“

Eyjólfur er Skagfirðingur að uppruna en þó ekki frá Skefilsstöðum. „Fjörðurinn bindur mann dálítið enda er svo fallegt hér úti á Skaga og gott að vera hér. Þetta er bara griðastaðurinn okkar,“ segir hann og útskýrir að búskap hafi verið hætt á jörðinni þegar hann keypti hana á sínum tíma. „Við erum með hross og erum búin að heyja svo túnin eru laus undir tjöld gesta og leiki.“

Eyjólfur segir vel líta út með veður. „En við búum á Íslandi svo ekkert er í hendi. Svo er svaklegur ísjaki hér úti fyrir en mér skilst að það séu engir ísbirnir á honum. Hann þyrfti líka að fara í gegnum talsverða byggð áður en hann kæmi til okkar svo við erum nokkuð örugg.“

Hann kveðst líka hafa haldið upp á fertugsafmælið á Skefilsstöðum. „Þá var kúrekaþema, svo það var á svipuðum nótum. Alveg skelfilega gaman, svo er eftir að sjá hvort okkur takist toppa það núna.“

Búningakeppni er eitt af atriðum afmælisins og þar verða veitt verðlaun,“ að sögn Eyjólfs „Þegar menn mæta í veisluna verða þeir að leggja frá sér vopnin, þeim verður safnað saman á sérstakan stað svo allt fari nú friðsamlega fram.“ Hann á von á að dagskráin verði á fornmáli. „Við verðum að hafa einhverja þýðendur, býst ég við en Skagfirðingum er flest til lista lagt, þeir kunna líka að syngja, skálda og drekka.“

Koma þeir kannski ríðandi í hlað? „Já, nokkrir félagar mínir ætla að vera með einhverja skrautreið. Það á að verða reisn yfir þessu.“