Sögufélag Eyfirðinga gaf út nýverið verkið Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Jarða- og ábúendatal. Frá elstu heimildum til ársloka 2000.

Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár er mikið verk. Í sex bindum eða 2.377 blaðsíðum er rakið ábúendatal jarða aftur á landnámsöld, slitrótt reyndar og ekki allra, en samfellt frá árinu 1703.

Útgáfan Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár er sex binda verk, alls 2.377 blaðsíður.

Jón Hjaltason, formaður Sögufélags Eyfirðinga, segir að útgáfan eigi sér langan aðdraganda. „Höfundurinn, Stefán Aðalsteinsson, lagði drög að verkinu um 1950 en varð bráðkvaddur í janúar 1975. Þá vantaði talsvert upp á ábúendatalið. Það var síðan árið 2002 sem ritnefnd Sögufélagsins tók að sér að ljúka verki Stefáns,“ segir Jón.

Hann segir Birgi Þórðarson á Öngulsstöðum hafa veitt starfinu forystu og haft sér til fulltingis Kristján Sigfússon á Ytra-Hóli, Bernharð Haraldsson og Hauk Ágústsson. Bernharð hafði þá nýlega hætt störfum sem skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri en Haukur sem kennslustjóri í fjarkennslu við sama skóla.

Jóna Friðriksdóttir - til hægri - er varaformaður Sögufélags Eyfirðinga og Rannveig Karlsdóttir ritari.
Jakob Tryggvason

„Í verkinu segir Stefán meðal annars sögur af ábúendum – jafnvel kjaftasögur. Hann er þó stundum hikandi við að birta lýsingar presta á sóknarbörnum og veltir fyrir sér fjöllyndi eyfirskra bænda. Stefán hefur bersýnilega dvalið lengi á Þjóðskjalasafni og Landsbókasafni til að viða að sér fróðleik, líklega daga og nætur, þó það þekkist ekki lengur.“ Jón hikar ögn en segir svo: „Já, ég hlýt að segja þetta því að fróðleikurinn sem Stefán hefur grafið upp er slíkur að ég get ómögulega skilið hvernig hann fann þetta allt saman og hef þó sjálfur farið í hans spor. Eða að minnsta kosti reynt það.“ Að auki er í ritinu fróðleg grein ritstjórans, Birgis Þórðarsonar, um hreppa,“ segir Jón. Þá fylgir ritinu mannanafnaskrá sem Jóhann Ólafur Halldórsson og Katrín Úlfarsdóttir unnu.

„Sem var annar höfuðverkur og hann ekki lítill,“ segir Jón. „Nafnaskráin leggur undir sig heilt bindi og var ótrúlegur höfuðverkur. Að ákveða hvernig ætti að byggja hana upp var að gera mig vitskertan og hefði gert það ef Jóhann Ólafur hefði ekki komið til. Afskaplega úrræðagóður maður, enda Svarfdælingur.“

Í tilefni útgáfunnar efndi Sögufélag Eyfirðinga til hófs á Iðnaðarsafninu á Akureyri þar sem aðstandendum útgáfunnar var þökkuð aðstoðin. Hér eru þau Sveinn Jónsson í Kálfsskinni, Katrín Úlfarsdóttir og Jóhann Ólafur Halldórsson.
Jakob Tryggvason

Jón segir Sögufélag Eyfirðinga vera félagsskap um fjögur hundruð Eyfirðinga. „Þetta er áhugamannafélag sem hefur það höfuðmarkmið að sýna forfeðrum okkar þá virðingu að láta þá ekki falla í gleymsku, fólkið sem lagði grunn að því samfélagi sem er okkar – sannleikurinn er sá að aldrei í sögunni hefur íslenska þjóðin haft það betra en akkúrat núna. Það er því okkar að sýna þeim virðingarvott sem lögðu hornstein að þessu góða lífi. Þess vegna birtast gjarnan viðtöl í Súlum við núlifandi fólk sem hefur marga fjöruna sopið. Þannig eiga Súlur að færa jafnt fortíð sem nútíð til félagsmanna,“ segir Jón Hjaltason.