Kristín hringdi í mig í vinnuna síðasta miðvikudagsmorgun og sagðist vera komin með verki, mér lægi samt ekkert á. Ég stimplaði mig samt strax út, stökk af stað og kom heim um 11.10, þá sat hún sárþjáð í sófanum.“ Þannig hefst frásögn Magnúsar Yngva Einarssonar af því þegar hann, ásamt tengdamóður sinni, tók á móti lítilli dóttur sem lá mikið á í heiminn. Kristín kveðst hafa hringt í mömmu sína og hún ákveðið að kasta á þau kveðju áður en þau færu upp á spítala. „Mamma var með bíl heima, aldrei þessu vant, því pabbi var lasinn og komst ekki í vinnu.“

„Þegar tengdó var nýkomin fékk Kristín hrikalega harðar hríðir og við ákváðum að hún yrði að komast upp á deild strax,“ tekur Magnús við. „Ég stökk með barnaföt og fleira út í bíl en þegar ég kom inn aftur var Kristín að missa legvatnið. „Við verðum drífa okkur,“ sagði ég í angist en hún horfði í augun á mér og sagði ákveðin: „Ég er ekki að fara neitt.“

Fór að rembast inni á baðherbergi

Ég vissi fyrst ekkert hvernig ég átti að haga mér en Kristín fór inn á baðhergi og byrjaði að rembast framan við vaskborðið. Þá hringdi ég á Neyðarlínuna og sagði yndislegri konu þar að líklega værum við hjónin óvænt að eignast barn heima hjá okkur. Eftir stuttar útskýringar frá mér sagði hún að sjúkrabílar væru á leiðinni með bláum ljósum. Hún fór yfir gátlista hjá sér og leiðbeindi okkur tengdó sem lágum á hnjánum á baðherbergisgólfinu.

Þegar konan á línunni spurði hvort ég sæi í koll og ég svaraði játandi bað hún okkur að passa að barnið dytti ekki á höfuðið. Við náðum í hrúgu af handklæðum og í næstu andrá skaust höfuðið út. Ég sagði Neyðarlínukonunni það æstur og hún svaraði rólegri röddu: „Þá kemur búkurinn trúlega í næstu hríðum.“ Það var eins og við manninn mælt. Tengdamamma greip höfuðið og ég búkinn. Klukkan var 11.43 og stúlka fædd, með tíu fingur og tíu tær. Þetta slapp ótrúlega vel, sem betur fór.“

„Ef við eignumst fleiri börn væri ég alveg til í aðra heimafæðingu,“ segir Kristín.
Fréttablaðið/Anton Brink

Fæðingin í móðu

Magnús segir þau hafa ákveðið að láta sjúkraflutningamennina um að klippa á naflastrenginn. „Mér fannst líða margir klukkutímar þar til þeir komu, það hafa trúlega verið tvær mínútur! Þeir voru fimm saman og hrósuðu okkur fyrir frammistöðuna. Einn þeirra hafði tekið á móti sextán börnum og hann klippti á strenginn. Þetta var stórkostleg lífsreynsla fyrir okkur öll,“ segir Magnús og bætir við hlæjandi: „Það er ekki amalegt að hafa á ferilskránni að hafa tekið á móti barni!“

„Mamma er svo stolt líka, hún grínast með að hún ætli að setja titilinn „ljósmóðir“ við nafnið sitt í símaskránni,“ segir Kristín, sem kveðst ekki muna atburðarásina eins glöggt og maður hennar. „Þetta er allt dálítið í móðu hjá mér. Ég man eiginlega bara eftir mér þegar ég er komin inn í rúm með þá litlu og Hrafnhildur Halldórsdóttir, ljósmóðir í Björkinni, komin til okkar. Það var yndislegt að fá hana. Þá var Rebekka Sif, átta dóttir okkar, komin heim úr skólanum og Hrafnhildur fór í gegnum þetta allt með henni. Sú yngri, Fanndís Mist, fór til ömmu sinnar og afa eftir leikskólann og var þar í sólarhring,“ segir Kristín.

Hún hrósar Magnúsi og mömmu sinni fyrir dugnaðinn. Magnús tekur fram að hún hafi verið í aðalhlutverkinu sjálf og staðið sig algerlega eins og hetja. „Svo er hún bara eins og ekkert hafi gerst,“ bendir hann á. „Ef við eignumst fleiri börn væri ég alveg til í aðra heimafæðingu,“ segir Kristín alsæl.