Leikarahjónin Björn Thors og Unnur Ösp Stefánsdóttir voru útnefnd bæjarlistamenn Garðabæjar 2021 í gær við hátíðlega athöfn. Þau voru steinhissa.

„Við Bjössi höfum bara búið hér í þrjú ár og eiginlega verið í aðlögun. Þetta er því óvæntur heiður og við erum full þakklætis,“ segir Unnur Ösp Stefánsdóttir, leikari og leikstjóri, um titilinn bæjarlistamenn Garðabæjar 2021, sem hún og maður hennar voru sæmd í gær.

Hún segir þau þekkja fáa í bænum ennþá.

„Við höfum varla litið út um gluggana, enda með fjögur börn og líka á kafi í öðrum verkefnum.“

Áður í 101

Fjölskyldan var í 101 Reykjavík áður og Unnur viðurkennir að skrefin þaðan hafi verið dálítið þung.

„En nú losnar Garðabær ábyggilega aldrei við okkur! Við búum í Skógarlundi sem okkur finnst einstaklega fallegt götuheiti. Það er líka nýtt fyrir okkur að ganga út og vera umvafin náttúru eftir augnablik því hér eru hraun, vötn og skógar í næsta nágrenni. Slíkt eru lífsgæði. Það er gott að skokka að Vífilsstaðavatni og gaman að fara með börnin út í Heiðmörk. Við höfum líka Hönnunarsafnið á Garðatorgi og góða veitingastaði, einn var að opna í Sjálandi með æðislegum mat og sjávarútsýni. En við störfum í 101 ennþá, bæði í Þjóðleikhúsinu.“

Nýir bæjarlistamenn Garðabæjar, Björn Thors og Unnur Ösp.
Fréttablaðið/Eyþór

Aldrei meira að gera

Eins og kunnugt er leikstýrði Unnur manni sínum í einleiknum Vertu úlfur, einu örfárra verka sem hægt var að sýna í vetur. Það er hennar leikgerð eftir bók Héðins Unnsteinssonar.

„Upphaflega átti það bara að vera lítil, einlæg sýning sem mundi hreyfa við mikilvægri umræðu, en varð svo miklu stærri en okkur óraði fyrir. Við lukum tæplega 60 sýningum um síðustu helgi en byrjum aftur um miðjan ágúst. Þá fær Bjössi að leika í fyrsta skipti fyrir fullum sal af fólki með engar grímur,“ segir Unnur.

Hún upplýsir líka að aldrei hafi verið meiri framleiðsla á kvikmyndum og sjónvarpsefni hér á landi en á þessu ári.

„Við Bjössi höfum verið að leika hvort í sinni stóru seríu. Hann í Kötlu, sem verður frumsýnd á Netflix á næstunni og ég í Verbúðinni með Vesturporti.“

Nú er sumarfríið fram undan. Unnur segir útlandaþorstann ekki kominn heldur ætli þau fara um landið – kannski bara með tjald, veiða, heimsækja Snæfellsnes, Flatey og fleiri spennandi staði.