Langþráður draumur er uppfylltur með þessari nýju álmu við Álfhólsskóla sem byggð var fyrir Skólahljómsveit Kópavogs. Segja má að sveitin hafi verið í bráðabirgðahúsnæði þessa rúmlega hálfu öld sem hún hefur starfað,“ segir Össur Geirsson, skólastjóri hennar, um húsnæðið sem vígt var með pompi og pragt síðasta föstudag.

Össur rifjar aðeins upp söguna. „Við vorum lengi með aðstöðu í kjallara íþróttahúss Kársnesskóla og á tímabili í gömlum bóndabæ í Ástúni sem búið er að rífa, þar var náttúrlega engin hljóðeinangrun, lágt til lofts og stutt til veggja. Síðan fluttum við í íþróttahúsið Digranes árið 1999, það var hugsað sem millibilsástand meðan verið væri að finna framtíðarhúsnæði, ég fékk loforð um að við yrðum þar að hámarki tíu ár en þau urðu 20.“

Að byggja var það sem þurfti, að sögn Össurar. „Það var búið að bjóða okkur alls konar húsnæði en allt hafði það sömu annmarka, þar var engin hljóðeinangrun svo hljóðið fór eitthvert annað en það átti að fara, það vantaði æfingasal og hitt og þetta. Það hefði í raun alltaf verið meiri kostnaður við að taka gamalt húsnæði, gera það fokhelt og byrja upp á nýtt en að byggja frá grunni. Við erum við hlið Álfhólsins og hugsum vel til íbúanna þar, þeir hafa leyft þessu húsi að rísa í friði.“

Nýbygginguna segir Össur vera draum sem lengi hafi verið vera á draumastiginu. „Við erum eina skólahljómsveitin á landinu sem á húsnæði, sérstaklega hannað fyrir hennar starfsemi,“ segir hann og lýsir því nánar. „Hér eru sjö kennslustofur, geymslur fyrir hljóðfærin, nóturnar og búningana, hér er vinnuaðstaða fyrir kennarana, æfingasalur og auk þess tónleikasalur með sviði.“

Þegar viðtalið er tekið er allt að komast í skorður. „Við höfum verið dálítið í kössunum fram að þessu en nú sjáum við skólann eins og hann á að vera – og verður – næstu árin,“ segir Össur.

Opið hús var í húsnæði skólahljómsveitarinnar síðasta laugardag og Össur segir helling af fólki hafa komið að skoða það og gleðjast yfir framtakinu. „Hér var mikið fjör, enda virkilegt fagnaðarefni að fá svona aðstöðu. Verst að það skyldi þurfa 50 ára bið, en við sýtum það ekkert núna, fyrst þetta er í höfn.“

Skólahljómsveitirnar í Reykjavík, bæði Austurbæjar og Vesturbæjar sem síðar skiptust meira upp, hófu starfsemi tíu árum á undan Skólahljómsveit Kópavogs, að sögn Össurar. „En okkar hljómsveit er sú fyrsta sem stofnuð var bæði fyrir stráka og stelpur, hinar voru drengjahljómsveitir til að byrja með, svo komu stelpurnar og fengu að vera með. En hér í Kópavogi var eitt af markmiðunum strax að aðgengi að sveitinni væri jafnt fyrir stelpur og stráka. Við erum líka stolt af því.“

Össur kveðst aðeins hafa fengið að leggja til hugmyndir um hvernig nýja húsið þyrfti að vera til að þjóna tilgangi sínum. „Hér er vel hugað að hljóðvistinni innan húss, þannig að ekki sé of mikill glymjandi eða hljóðleki milli herbergja. Það skiptir öllu máli fyrir þessa starfsemi, meðal annars fyrir heilsufar bæði kennara og nemenda, svo þeir séu ekki að koma héðan út með heyrnarskemmdir. Þetta er eins og hver annar tónlistarskóli, nemendur fá sambærilega kennslu og í öðrum tónlistarskólum.“

Í lokin er Össur spurður hversu lengi hann hafi verið skólastjóri Skólahljómsveitar Kópavogs. „Í ansi mörg ár! Ég tók við sem skólastjóri 1993 en ég er búinn að vera í hljómsveitinni frá 1972. Það var eiginlega það fyrsta sem ég gerði þegar ég flutti í Kópavoginn að skrá mig í sveitina og læra þar á hljóðfæri. Ég er búinn að vera hér síðan og tel mig eiga Íslandsmet í þrautseigju, að hafa verið í næstum 50 ár í barnalúðrasveit!“