Allt verður í lágum gír út af COVID, annars er ég veisluglöð kona,“ segir Þórhildur Líndal lögfræðingur, um viðbúnað vegna sjötugsafmælis hennar í dag. „En þetta er afmælisár og þess vegna hægt að gera eitthvað skemmtilegt í hverjum mánuði. Mér finnst dýrmætt að lifa lífinu lifandi og njóta þess með fjölskyldu og vinum.“

Þórhildur heitir svo eftir föðurömmu en kveðst ekki hafa verið sérlega ánægð með nafnið á yngri árum. „Pabbi, Páll Líndal, spurði hvort ég hefði heldur viljað heita Bóthildur því Þórhildarnafnið væri sett saman úr nöfnum ættmenna okkar, Þórðar og Bóthildar. Nei, þá fannst mér Þórhildur skárra! Líndal er úr Húnavatnssýslu, forfaðir minn, Björn Líndal Jóhannesson, tók það upp sem ættarnafn, hann var frá Sporði í Línakradal.“ Lögspeki er Þórhildi í blóð borin og eiginmaðurinn, Eiríkur Tómasson, þrír synir þeirra og tvær tengdadætur hafa náð í slíka afleggjara líka.

Fyrst man Þórhildur eftir sér á Bergstaðastræti 69. „Við fluttum svo á Laugarásveg og ég fór í Langholtsskóla.“ Hún minnist fjölskyldustunda á síðkvöldum þar sem allir hlustuðu á spennandi leikrit og skemmtiþætti Svavars Gests í útvarpinu. „Ég átti plötuspilara sem unglingur og keypti mér bítlaplötur um leið og þær komu. Ég spila þessa tónlist fyrir barnabörnin og þeim finnst hún flott. En ég ólst líka upp við að hlusta á Kurt Weill, Mario Lanza og óperettur og er óperuaðdáandi.“

Þórhildur hefur starfað hjá Borgardómi, í tveimur ráðuneytum, við kennslu í HÍ og sem forstöðumaður Rannsóknastofu sem kennd er við Ármann Snævarr.

Þekktust er hún sem fyrsti umboðsmaður barna hér á landi, frá 1995 til 2005. „Eitt af mínum fyrstu verkum var að fara í grunnskóla um allt land að heyra raddir umbjóðenda minna, barnanna og hvað á þeim brynni. Það skilaði mörgum ábendingum til embættisins. Baráttan fyrir mannréttindum barna var hafin og ekki aftur snúið.“