„Ætliði ekki að taka af ykkur grímurnar? Við erum búin að fá sprautur,“ segir Þórður Tómasson á Skógum hressilega. Þessi „við“ eru hann og systir hans Guðrún sem bauð okkur Valgarði ljósmyndara inn. Á stofuborðinu er nýjasta bók Þórðar, Stóraborg – staður mannlífs og menningar – sem kom úr prentun í fyrradag. Aðspurður kveðst hann hafa skrifað um þrjátíu bækur og einnig gefið út ritið Goðastein í 25 ár, með Jóni R. Hjálmarssyni, skólastjóra og rithöfundi. „Enn að skrifa? Nei, það heitir ekki. En þarna er hluti af handritunum mínum,“ segir hann og bendir á möppuröð í einu horninu. „Ég átti bara eitt erindi inn í veröldina og það var að sinna þessari gömlu menningu.“

Upp úr fermingu kveðst Þórður hafa byrjað að skrifa. „Ég átti þá hamingju að alast upp með gömlu fólki, meðal annars konu sem var fædd árið 1860, Arnlaug Tómasdóttir hét hún. Ég skrifaði eftir henni heila bók. Á þeim tíma var fjölbýlt mjög undir Eyjafjöllum og víða aldrað fólk á bæjum og það voru allir fúsir til að svara, þannig safnaðist mér fróðleikur. Ég byrjaði líka upp úr fermingu að halda til haga gömlum hlutum. Alls staðar var verið að leggja til hliðar áhöld sem ekkert lá fyrir annað en fara í eldinn eða verða að engu á annan hátt.“

Þórður rekur stofnun byggðasafns í Rangárvallasýslu til samþykktar á sýslunefndarfundi 1945 og segir það hafa mestmegnis orðið sitt hlutskipti að ferðast um byggðina og safna munum. „Fólkið var samhuga um að standa vel að safninu og mér var alls staðar vel tekið.“

Safnið fékk fyrst inni í kjallara hins nýja héraðsskóla á Skógum og var opnað um leið og hann var vígður árið 1949 að sögn Þórðar. „Vestur-Skaftfellingar ákváðu að taka þátt í safninu með Rangæingum og árið 1952 kom glæsilegur hlutur þaðan, hið sögufræga áraskip Pétursey, smíðað 1855. Safnhúsið var byggt utan um það. Í nóvember 1959 flutti ég með foreldrum og systrum hingað að Skógum frá Vallnatúni í Holtshverfi undir Eyjafjöllum, þar sem mitt æskuumhverfi var. Tók þá við vörslu byggðasafnsins í hálfu starfi – og hlutastörfum við héraðsskólann, á sviði tónlistar og söngs og Þjóðminjasafn Íslands við heimildaöflun.“

En hver skyldi galdurinn vera við að ná svona háum aldri? „Því ræður enginn sjálfur, við verðum að taka því sem að okkur er rétt. Þannig hefur það orðið í mínu lífi, árin liðið eitt af öðru og þegar ég lít til baka þá rennur þetta nokkuð í eitt og virðist ekki vera svo afskaplega langt. En ég á auðvitað margar minningar, sérstaklega um gott fólk sem ég hef kynnst á ævileiðinni og ég má vera þakklátur bæði við guð og menn – og ég er það.“

Sigmundur Ernir mun endursýna þátt um Þórð og Skógasafn klukkan 21.30 í kvöld á Hringbraut.