Mér var sagt að vindur blési oftast úr austri á Suðurlandi og ég ætti því að fá byr á leiðinni, en síðustu daga hefur verið stöðug vestanátt,“ segir Arnar Helgi Lárusson, sem nú freistar þess að komast á handhjóli frá Höfn til Selfoss á innan við sólarhring.

Hann er formaður SEM, samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra. Með ferðinni vill hann vekja athygli á mikilvægi hreyfingar og söfnun samtakanna fyrir fjórum rafmagnsfjallahjólum fyrir hreyfihamlaða. Hann býr í Njarðvíkunum og lagði af stað þaðan akandi í gærmorgun. Þetta viðtal var tekið áður.

Lamaðist frá brjósti og niður

Arnar Helgi lenti í mótorhjólaslysi árið 2002, þá 26 ára, og lamaðist frá brjósti og niður. Hann lét ekki hugfallast heldur byrjaði strax æfingar, að eigin sögn.

„Ég gekk í spelkum í stórri göngugrind í nokkur ár og fékk ánægju og styrk út úr því. Í framhaldinu fór ég að lyfta og taka þátt í mótum, lenti einu sinni í öðru sæti á íþróttamóti ófatlaðra. Svo keppti ég á hjólastól þar til fyrir þremur árum, þá fótbrotnaði ég og skipti yfir í handhjól. Það eru alltaf áskoranir í lífinu en mér hefur gengið ótrúlega vel. Þó hreyfihömlun sé líkamleg fötlun þá hefur hugurinn mest að segja. Krafturinn sem kemur með því að hreyfa sig skilar manni áfram og nýtist í vinnu og daglegu lífi, því maður er leggja inn á sjálfan sig. Ég vil vera í standi til að fylgjast með börnunum mínum og síðar barnabörnum, þó ég verði gamall,“ segir hann og upplýsir að hann sé faðir þriggja barna, fimmtán ára sonar, og tvíbura sem verða ellefu ára í lok þessa mánaðar.

Eiginkonan stendur þétt við bakið á Arnari Helga. Hún er einmitt með honum í ferðinni og fimmtán ára sonur þeirra, auk bróður Arnars Helga og vinar, þau skiptast á að hjóla fyrir framan hann og brjóta vindinn. Fleiri vinir eru á bílum og þegar líður á ferðina á hann von á að fleiri hjólarar bætist í hópinn, meðal annars á handhjólum.

„Þetta verður bara gaman.“

Ótrúlega gaman af verkefnum

Hingað til kveðst Arnar hafa hjólað mest 200 kílómetra í einu á hjólinu, það er eins og vegalengdin milli Hafnar og Kirkjubæjarklausturs.

„Ég veit ekkert hvað gerist eftir 200 kílómetrana núna en ég er búinn að þjálfa mig vel í vetur. Síðustu tvær vikur hef ég bara hjólað tíu kílómetra í einu til að ná upp langvarandi orku. Í ferðinni drekk ég kolvetni og gel á klukkutíma fresti en það gefst ekki mikill tími fyrir hvíld. Ef planið á að halda verð ég að fara sautján til átján kíómetra á klukkustund. Ég hef ekkert of miklar áhyggjur, þetta mun ganga vel hvort sem ég næ settu tímamarki eða ekki. Svo ætla ég að hvíla mig vel á eftir. Ég hef ótrúlega gaman af verkefnum og trúðu mér, ef ég næ ekki að leysa þau bý ég mér til önnur. Viljastyrkur skiptir miklu máli ef maður vill eiga gott líf.“

Lærum öll hvert af öðru

Arnar kveðst starfa sjálfstætt.

„Síðustu sumur hef ég verið með gröfu að taka fyrir pöllum og fleiru. Með SEM-samtökunum hef ég séð um jafningjafræðslu á Grensásdeild, ég ræði við fólk sem hefur slasast og reyni að stytta því leið til góðs lífs. Við lærum öll hvert af öðru. Það sem ég mæli með er að hvert og eitt okkar horfi á kosti sína og vinni með þá, frekar en að hugsa um það sem við getum ekki gert. Annars verðum við aldrei ánægð. Ég er 45 ára og er búinn að kynnast ýmsu í lífinu. Fyrir mitt leyti er ég endalaust þakklátur fyrir handstyrkinn. Ef ég væri alltaf að hugsa um að ég geti ekki gengið þá væri ég ekki ánægður með sjálfan mig, því ekki er ég góður í því. Mér finnst ungt fólk í dag pæla alltof mikið í hlutum sem það getur ekki, þó það geti flest annað. Það á ekki bara við um hreyfihamlaða.“