„Mig hefði aldrei grunað að ég gæti orðið svona gömul án þess að finnast ég gömul – en þannig er það örugglega með marga,“ segir Guðrún Agnarsdóttir læknir glaðlega þegar minnst er á áttræðisafmælið sem er í dag. Sumt af fólkinu hennar er komið frá London til að vera með henni. „En það fólk er allt bólusett,“ tekur hún fram og neitar því ekki að hafa haft áhyggjur af því í faraldrinum. „Dóttir mín er kennari og líka dóttir hennar og þær smituðust en fengu samt sprautur því Bretar skima ekkert.“ Sjálf segist Guðrún komin með fulla bólusetningu og vera þakklát fyrir hvað Íslendingar tóku kófið föstum tökum. „Þetta getum við svo vel þegar eitthvað bjátar á – að rísa upp og standa saman. Það er ómetanlegt.“

Sextug á Hnjúkinn

Guðrún kveðst hafa alið aldur sinn í Reykjavík ef frá er talinn stuttur tími sem hún og maður hennar, Helgi Þröstur Valdimarsson, síðar prófessor við HÍ, voru á Hvammstanga við læknisstörf og svo þrettán ár í London í sérnámi og vinnu. „Já, við Helgi kynntumst í læknadeildinni,“ segir hún aðspurð. „Hann var á undan mér, alltaf fimm árum eldri og lést 2018.“ Hún kveðst þó ekki búa ein núna. „Dóttursonur minn er hjá mér. Hann er fæddur og uppalinn í London en er að vinna við rannsóknir í Íslenskri erfðagreiningu með syni mínum. Við Helgi eignuðumst þrjú börn og svo á ég tvo stjúpsyni. Þetta er allt fólk sem hefur eignast góða maka, börn og buru og það eru komin langafabörn.“

Þegar Guðrún var í Háskóla Íslands voru bara 5 prósent læknanemanna stúlkur, að hennar sögn. „Það hefur gerbreyst,“ segir hún og rifjar upp að á þeim árum hafi læknanemar verið sendir í sláturskoðun á haustin og hún hafi lent austur á Fagurhólsmýri. „Þar blasti tignarlegur Öræfajökull við og á hann gekk ég, með hópi fólks, daginn sem ég varð sextug sem bar upp á hvítasunnudag. Það er eftirminnilegt. Okkur gekk vel upp að Dyrhamri en þar fór að snjóa. Við héldum samt áfram, vorum í línu og það voru höggvin þrep í Hnjúkinn þannig að við komumst upp en sáum ekkert kringum okkur. Svo ég fór aftur nokkrum árum seinna með samstarfsfólki mínu á Keldum og þá fékk ég útsýnið.“

Hér er Guðrún með Kvennalistakonum 1987, önnur frá hægri. Hinar eru: Elín G. Ólafsdóttir, Kristín Halldórsdóttir, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Kristín Einarsdóttir, Magdalena Schram og Málmfríður Sigurðardóttir.
Mynd/Aðsend

Kynntist landi og þjóð

Guðrún hefur víða lagt hönd á plóg á starfsferlinum, sat meðal annars á þingi í nokkur ár fyrir Samtök um kvennalista. „Eftir að fyrsta þingmál okkar var samþykkt um rannsóknir og úrbætur á meðferð nauðgunarmála sat ég í nefnd sem skipuð var í kjölfarið og var síðan beðin að gera tillögur að stofnun Neyðarmóttöku sem ég vann við í nokkur ár. Það var verðmæt reynsla að taka þátt í því með frábæru fólki. Ég hef verið afskaplega heppin að fá að prófa ýmislegt um ævina, þó ég hafi ekkert ætlað mér það. Ég minntist á Keldur áðan, rannsóknarstöðin þar var einstök menningarstofnun og gaman að vinna þar með merkilegum mannskap. Sömuleiðis starfaði ég lengi í Krabbameinsfélaginu, líka í góðum hópi.“

Nú nýtur Guðrún bóklesturs, tónlistar, garðyrkju og hreyfingar, auk félagsskapar við vini og fjölskyldu og kveðst hafa margt að sýsla. En er hún ekki skúffuð að hafa ekki orðið forseti 1994? „Ekki get ég nú sagt það. Eftir á að hyggja er ég alveg sátt við að hafa ekki komist að sem forseti en ég hefði ekki viljað missa af þeirri reynslu að fara um landið og kynnast fólki. Það gerðum við líka á vegum Kvennalistans, fórum á sumrin inn á vinnustaði og ræddum við fólk um kjör þess og líðan, óskir og vonir. Þetta er aðgangur að þjóðinni sem veitir manni vitneskju um í hvaða landi maður býr og hvað má betur fara. Þannig að ég er afar þakklát fyrir mitt líf og finnst ég hafa verið gæfusöm.“