Merkisatburðir

Enski boltinn sýndur beint í fyrsta sinn

Á þessum degi árið 1982 var fyrsta beina útsendingin frá enska boltanum þegar úrslitaleikur deildarbikarsins var sýndur. Liverpool og Tottenham öttu kappi en leikurinn fór í framlengingu og RÚV þurfti því að rjúfa útsendinguna sem fór ekki vel í landann.

Liverpoolmenn hressir og kátir með bikarinn góða sem Íslendingar fengu ekki að sjá fyrr en helgina eftir. NordicPhotos/Getty

Enski boltinn var sýndur í fyrsta skipti beint á þessum degi árið 1982. Þá var viðureign Tottenham og Liverpool sýnd í úrslitaleik um deildarbikarinn. Þetta var í fyrsta sinn sem erlendur íþróttakappleikur var sýndur í beinni útsendingu.

Gríðarleg eftirvænting var fyrir leikinn eins og sjá má í blaðagreinum fyrir leikinn. Þannig voru leikir í 1. deild í handboltanum til dæmis færðir til svo handboltamenn landsins gætu notið leiksins. Blaðið Tíminn sagði í helgarútgáfu sinni á leikdag: „Klukkan tæplega þrjú í dag rennur upp stóra stundin hjá íslenskum knattspyrnuunnendum, en þá hefst bein útsending frá Wembley þar sem Tottenham Hotspur og Liverpool leiða saman hesta sína.“

Leikurinn fór 1:1 og því þurfti að framlengja en því miður var RÚV búið með gervihnattasambandið og því var slökkt á útsendingunni. Framlengingin fór því framhjá íslenskum sjónvarpsáhorfendum. Í DV sem kom út á þriðjudegi var farið yfir málið. „Á slaginu kl. 17 á laugardaginn þurfti flestum Íslendingum til mikillar armæðu, Vis-news, sjónvarpsstöðin að taka yfir línuna og áhorfendur á Íslandi misstu því af besta kafla leiksins. Þegar klippt var á leikinn var staðan 1:1, en lið Liverpool sem þá stundina hafði alla yfirburði bætti við tveim mörkum og vann 3:1.“

Framlengingin var svo loks sýnd helgina á eftir í lýsingu Bjarna Felixsonar, guðföður enska boltans í íslensku sjónvarpi.


Kristján Már Unnarsson var ekki sáttur að leiknum hefði verið hætt.

Fjölmiðlamaðurinn Kristján Már Unnarsson skrifaði fjölmiðlapistil í DV síðar í vikunni þar sem hann segir: „Ég verð að játa gremju mína. Ég varð meira að segja reiður. Fannst á tímabili ekkert sjálfsagðara en að þeir menn úti í heimi sem ábyrgð bæru á þessari ósvífni, að svipta Íslendinga mikilvægum mínútum af fótboltaleik vegna einhverra fréttasendinga, yrðu tafarlaust leiddir fyrir aftökusveit.“

Ljóst er að æðið fyrir enska boltanum var komið til að vera og ekki sér fyrir endann á því æði.

Bjarni Fel sat fyrir svörum fyrir hönd íþróttadeildarinnar.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Tímamót

Tíðar­andinn nær jafn­vel í gegn í kirkju­görðunum

Tímamót

Aðgengi fyrir allt árið hlaut umhverfisverðlaun

Tímamót

Við verðum í jólaskapi

Auglýsing

Nýjast

Garðurinn standsettur á undan baðherberginu

Skemmtistaðurinn Glaumbær brann

Heiðruðu fjölþjóðlegan hóp nýdoktora frá HÍ

Menningarteiti Teits haldið þriðja árið í röð

Drifinn áfram á kraftinum

Í dag verður reynt að lenda geimfarinu InSight á Mars

Auglýsing