Kórastarf er eitt af því sem gengið hefur úr skorðum í kófinu. Það liggur meira og minna niðri nú, að sögn Gísla Magna Sigríðarsonar, söngvara og kórstjóra. Hann segir þó alltaf einhverja mæta til að syngja í messum en þeir séu færri en venjulega. „Ég var að syngja í útvarpsmessu síðasta sunnudag og þá vorum við bara fjögur,“ upplýsir hann. „Í tilkynningum frá yfirvöldum hefur bara einu sinni síðan í vor verið minnst á kóra, ég er svolítið hissa á því þar sem starfsemi þeirra er venjulega komin vel í gang um þetta leyti.“

Gísli er stjórnandi Léttsveitar Reykjavíkur sem er um hundrað kvenna kór. Hann situr líka í stjórn Félags íslenskra kórstjóra og fylgist með starfi kollega um allt land. „Kórar eru í fríi að langstærstum hluta. Einstaka er eitthvað að reyna. Sjálfur er ég að vinna gegnum Zoom og streymi á fésbók með Léttsveitinni. Tek eina rödd fyrir í einu, tala við félagana og geri æfingar. Ég veit að Heiðar Sigurðsson, kórstjóri á Höfn, er líka með Kvennakór Hornafjarðar í Zoomi,“ segir hann og heldur áfram. „Við slíkar aðstæður fer fólk auðvitað á mis við það yndi sem kórstarfi fylgir, samveruna og samhljóminn. Sumir félagar taka þessu létt og segja: „Þetta gengur yfir og við reynum að læra lögin á meðan“. Aðrir ná ekki flugi og ætla að taka sér frí fram yfir áramót. Enginn veit hvort það verða aðventu-eða jólatónleikar.“

Kórstarfið krufið

„Undrið að syngja í kór“ nefnist meistaraverkefni Gísla sem lauk námi við tónlistardeild LHÍ í fyrrahaust. Það fjallar um gildi kórastarfs í víðu samhengi. „Sjálfur hef ég starfað í kór frá ellefu ára aldri og hef alltaf heillast af því sem kórstarf kallar fram. Það snýst ekki bara um sönginn sjálfan heldur samfélagið sem skapast gegnum hann. Ég var að reyna að kryfja það og tók viðtöl við konur úr Léttsveitinni, hinum 25 ára kór sem ég hef stjórnað síðustu þrjú ár – og efndi til viðburðar í Háteigskirkju sem var hluti af verkefninu.“

Lögin hans afa

Gísli kveðst einnig kenna söng í tveimur skólum, Listaskóla Mosfellsbæjar og Tónlistarskóla Kópavogs. „Það eru einkatímar og vel gætt að fjarlægðamörkum. Hóptímar eru í pásu,“ tekur hann fram. Auk þessa er hann að gefa út plötu með lögum eftir afa sinn, Steingrím M. Sigfússon. „Ég tók fimmtán flott lög sem fæst hafa komið út áður og öll eru í nýjum útsetningum,“ lýsir hann. „Platan var tekin upp í sumar, ég var með hljómsveit og náði að halda tvenna tónleika þegar COVID-fárinu létti um tíma, aðra í Reykjavík og hina vestur á Patró, ég er þaðan. Platan ætti að koma út í nóvember, Nóttin og þú, heitir hún. Ég er að reyna að selja hana fyrir fram gegnum Karolina Fund.“

Gísli Magna Sigríðarson er svolítið spes nafn, segi ég. „Já, upphaflega var ég skrifaður Magnason og breytti því en vildi ekki láta Magnanafnið falla út. Þar mátti ekki vera bandstrik á eftir, kannski má það núna!“

Gísli stjórnar Léttsveitinni gegnum Zoom, tekur eina rödd í einu og gerir æfingar. Fréttablaðið/Anton Brink