Þrátt fyrir erfiða lífsreynslu í síðustu viku, þegar snjóflóð lenti á húsi hennar á Flateyri og elsta barnið af þremur lá undir þungu fargi þess í fjörutíu mínútur, er Anna Sigríður Sigurðardóttir kennslustjóri hughraust og yfirveguð. „Ég hef það bara gott. Er á fullu að fara yfir eigur mínar, sortera og henda og líka svara í símann. Þegar róast fer ég kannski að finna meira fyrir áfallinu,“ segir hún þegar hún er spurð um líðan sína.

Eitthvað af eigum fjölskyldunnar er nothæft eftir hamfarirnar, að sögn Önnu Sigríðar. „Margt slapp, til dæmis föt sem konur hér á Flateyri voru fljótar að grípa til að þvo og þurrka. En innanstokksmunir eru auðvitað ekki heilir, engin rúm til dæmis, og það er raki í öllu.“

Hún kveðst hafa fengið húsaskjól fyrir sig og börnin þrjú, að minnsta kosti eitthvað fram í febrúar, og ætla að halda ótrauð áfram að sinna starfi sínu sem kennslustjóri við Lýðháskólann.

Hljótt hefur verið um skólann í fjölmiðlum að undanförnu svo Anna Sigríður er hreinlega spurð hvort einhverjir nemendur hafi verið á staðnum þegar snjóflóðin féllu. „Já, já, skólastarfið var í fullum gangi. Það voru allir á sínum stað og eru enn, enda er starfið komið aftur á skrið. Það er ekki uppgjöf í fólki hér.“ Sem dæmi nefnir hún að Ölmu Sóleyju, dóttur hennar sem lenti í snjóflóðinu, hafi boðist að koma suður í gamla skólann sinn og ljúka tíunda bekknum þar. „En hún valdi að vera hér áfram fyrir vestan og klára grunnskólann með vinum sínum hér. Svo ætlar hún suður til pabba síns næsta haust og fara í framhaldsskóla þar, það var alltaf ákveðið. Þannig er að minnsta kosti planið núna.“

Anna Sigríður segir nýtt Rauða krossteymi komið vestur á Flateyri til að veita fólki á staðnum sálræna aðstoð áfram. Það leysi annað sambærilegt teymi af hólmi sem hafi verið búið að standa sig vel.