Þetta leggst bara ágætlega í mig, segir Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur og rithöfundur sem segist hvergi nærri sestur í helgan stein. „Ég vinn á fullu enn þá svo mér finnst þetta engin sérstök breyting. Afmælisdaginn ber bara að eins og þeir hafa alltaf gert. Ég er enn þá heilsuhraustur þótt maður sé náttúrulega orðinn aðeins stirðari með aldrinum.“

Síðasta bók Guðjóns var ævisaga Halldórs Ásgrímssonar en á þessu ári kemur út heljarmikið verk eftir hann sem ber heitið Samvinna á Suðurlandi. „Það er reyndar svolítið síðan ég lauk við það, en þetta er fjögurra binda verk sem er saga allra samvinnufélaga í þremur sýslum og Vestmannaeyjum að auki,“ segir Guðjón.

Þar verða ekki einungis tekin fyrir kaupfélögin heldur mörg samvinnufélög undir ýmsum pólitískum merkjum. „Þetta er eiginlega héraðssaga Suðurlands lengst af á tuttugustu öld, þar sem félögin stóðu fyrir flestu sem til framfara horfði.“ Guðjón á sjálfur ættir að rekja til Eyrarbakka, en móðir hans var fædd í svokölluðu Hraunshverfi á Eyrarbakka. „Hverfið er nú að mestu horfið en ég á enn þá frændfólk á Eyrarbakka og Stokkseyri.“

Áhugamálin tvinnast þægilega við störf Guðjóns. „Ég er svo heppinn að geta unnið við helstu áhugamál mín“ , segir hann en bætir við að þau hjónin hafi fleiri áhugamál, sem einkum tengjast listum. „Við förum meðal annars mikið á tónleika, fórum t.d. á sjötíu ára afmælistónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands fyrir helgi og vorum alveg bergnumin. Hljómsveitin er afbragðsgóð og sinfónía Mahlers stóð upp úr að þessu sinni“.

En leiðir hjónanna liggja einnig lengra en niður í Hörpu, þau hafa gaman af að ferðast og voru nú síðast á Norður-Indlandi „Við vorum lengst af í Varanasí sem er helgasta borg Hindúa. Hún er alveg þrælmögnuð, eiginlega hryllileg og heillandi í senn. Indland er ótrúlegur hrærigrautur af margs konar menningu, trúarbrögðum og tungumálum, auk hins mikla mannhafs,“ segir Guðjón og bætir við að þetta sé einhver eftirminnilegasta og skemmtilegasta ferð sem þau hafa farið.

Guðjón fagnar afmælisdeginum í rólegum faðmi fjölskyldunnar. „Við ætlum bara að vera með smá kaffiboð fyrir börn okkar og barnabörn.