Aldurinn fer vel með Hún­vetninginn Hauk Páls­son, bónda á Röðli, sem heldur upp á ní­ræðis­af­mælið í dag.

Það er svo ung­leg rödd sem svarar í símann á Röðli að ég efast í fyrstu um að um réttan Hauk sé að ræða en þetta reynist vera bóndinn Haukur Páls­son sem er ní­ræður í dag.

„Ég á nokkra af­kom­endur sem heita Haukur líka en ég er orginalinn,“ segir hann hlæjandi. Hann kveðst yfir­leitt hafa verið hraustur um dagana og því vel settur. Haukur er ekkju­maður og býr einn en kveðst heim­sækja dæturnar í bænum. „Þær eru tvær, ég á ekki fleiri börn, hvorki fram­talin né ó­fram­talin,“ tekur hann fram. Spurður hvort hann sjái um sig sjálfur svarar hann:

„Já, svona gróft séð. Ég er kannski ekki nógu ná­kvæmur með glugga­tjöldin en þá hlaupa af­kom­endur undir bagga!“ Spurður út í bú­skapinn kemur í ljós að Haukur á nokkrar kindur og rúm­lega hundrað hross. „Ég er í blóð­tökunni, tek blóð úr fyl­fullum hryssum sem fyrir­tækið Ís­teka fram­leiðir frjó­semis­lyf úr fyrir svína- og naut­gripa­rækt. Svo­lítil folalda­sala er til út­landa líka, mest til Þýska­lands.“

„Ég er kannski ekki nógu ná­kvæmur með glugga­tjöldin en þá hlaupa af­kom­endur undir bagga!“

Bærinn Röðull er skammt frá Blöndu­ósi og Haukur kveðst eiga tvær aðrar jarðir í ná­grenninu, svo hann hafi hrossin í heima­högum.

„Ég nota ekkert af­réttinn en ég rak þangað meðan ég var með mörg hross. Þegar mest var voru þau um þrjú hundruð.“ Hann kveðst dunda við að temja tryppi. „Ég á nú enga reið­höll en það er gott pláss í fjár­húsunum til að band­venja.“

Þegar hann var yngri kveðst hann hafa verið girðinga­verk­taki og líka öku­kennari. Nú er hann ný­kominn heim úr kaup­staðar­ferð til Sauð­ár­króks á bílnum sínum, Ford 350, með langan vagn aftan í. Inntur eftir þátt­töku í fé­lags­lífinu upp­lýsir Haukur að hann sé í tveimur veiði­fé­lögum, Lax­ár á Ásum og Blöndu.

Haukur syngur ef hann fær tæki­færi til þess að eigin sögn og það tæki­færi ætti að skapast í dag, því ef­laust verður fjör í af­mælinu.

„Svo fer ég í hesta­ferðir með dóttur­syni mínum, Hauki Garðars­syni í Hvammi í Vatns­dal, hann rekur ferða­skrif­stofuna Ís­lands­hesta. Ég fór í sumar með honum suður Kjöl og til Þing­valla með trúss á rútu­bíl.“ Sjónin er fín, að sögn Hauks. „Ég á engin gler­augu enn­þá, fæ mér þau þegar ég verð gamall. Les síma­skrána gler­augna­laus en hún fer nú að fara úr gildi og það kemur engin ný!“

Haukur syngur ef hann fær tæki­færi til þess að eigin sögn og það tæki­færi ætti að skapast í dag, því ef­laust verður fjör í af­mælinu. „Það eru allir vel­komnir hingað að Röðli frá há­degi og fram á næsta morgun. Dætur mínar og aðrir af­kom­endur sjá um þetta,“ segir Haukur. „Ég geri ekki neitt, þó ég sé drjúgur með mig.