Útitónleikar verða í Lystigarðinum í Hveragerði um helgina. Líklega þeir fyrstu á landinu eftir að Covid-þokunni létti. Tveggja kvölda tónlistarhátíð sem ber yfirskriftina Allt í blóma.

„Kuldinn stoppar okkur ekki, ég hef haft meiri áhyggjur af rigningu og skoðað veðurspár reglulega, bæði þá íslensku og norsku, en nú lítur allt vel út,,“ segir Sigurgeir Skafti Flosason tónlistarmaður, sem er prímus mótor í útitónleikum í Lystigarðinum í Hveragerði bæði á föstudags- og laugardagskvöld, 18. og 19. júní.

„Við erum með yfirbyggt svið og svo er mikið skjól í garðinum. Þar verður bara geggjað flott að vera að syngja og tralla og dilla sér. Fólk fær að hlusta á alls konar músík og miðar eru á tix.is,“ heldur hann áfram. „Við erum með landslið poppara, líka smá blús og svaka söngkonur. Sem sagt fjölbreytt einvalalið og engin ein tónlistarstefna ríkjandi heldur sitt lítið af hverju. Þetta er tónlistar-og menningarveisla, það gerir þetta svo skemmtilegt.“

Sjálfur er Sigurgeir Skafti hljómsveitarstjóri í sveitinni Blómabændur og spilar þar á bassa. Auk hans eru í henni þeir Vignir Þór Pétursson á píanó, Pétur Valgarð Pétursson á gítar og Óskar Þormarsson á trommum. Meðal annara listamanna sem koma fram eru Stefán Hilmarsson, Magnús Þór Sigmundsson, Unnur Birna, Hreimur Örn, Stefanía Svavarsdóttr, Lay Low og Dagný Halla.

Lystigarðurinn er á bökkum Varmár, uppi undir hlíðinni og markast af götunum Breiðumörk, Skólabraut og Reykjabraut. Hann verður opnaður klukkan 18 báða dagana, dagskráin hefst klukkan 20 og stendur til klukkan 23 bæði kvöldin.

Sigurgeir Skafti segir hana setta upp sem fjölskylduhátíð. Hann tekur fram að í garðinum verði hægt að kaupa sér sitthvað að borða og drekka. Auk þess sé röð af góðum veitingastöðum með fram Breiðumörkinni sem sé aðal aðkomuleiðin á svæðið.

„Það er breiðgata bragðlaukanna,“ segir hann og fullyrðir að allir leggist á eitt í blómabænum við að gera helgina sem ánægjulegasta.“