Jónsmessunæturgangan í Elliðaárdalnum er orðin rótgróin hefð fyrir alla þá sem vilja kynna sér dularmögnin sem leysast úr læðingi á þessari töfranóttu. Björk Bjarnadóttir umhverfis- og þjóðfræðingur sem hefur leitt gönguna undanfarin ár segist finna fyrir auknum áhuga Íslendinga á Jónsmessunni.

„Fólk er almennt komið með mikinn áhuga á göngum sem tengjast þekkingu sem náttúran ber í sér,“ segir hún. „Þetta hefur aðallega verið eldra fólk og unglingar, en fólk hefur líka verið að taka með sér tíu eða ellefu ára börn sem er allt í lagi því allir eru komnir í sumarfrí. Það mættu næstum hundrað manns í fyrra og það var rosa gaman að fræða fólk um fornar sögur og náttúruna á sama tíma.“

Brönugrasið (Dactylorhiza maculata) gæti hæglega sett Tinder á hausinn.

Talsmaður jurtanna

Björk segir Jónsmessu vera mikla töfranótt sem tengist góðum vættum.

„Þetta er björt nótt og því geta engar slæmar verur verið á ferli,“ segir hún. „Það er þessi kraftur í náttúrunni sem nær hæstu hæðum þegar birtan er sem mest áður en myrkrið tekur við. Þetta er hápunktur birtunnar og kraftanna sem búa í náttúrunni.“

Áður fyrr var mikil trú á Íslandi á þann lækningamátt í plöntunum sem tína má á Jónsmessu.

Lyfjagras (Pinguicula vulgaris) er ein af þremur plöntum á Íslandi sem nærast á litlum flugum.

„Það er lækningamáttur í plöntunum og það er lækningamáttur í dögginni, bæði fyrir andlegan og líkamlegan bata,“ útskýrir Björk, sem segir að plönturnar búi yfir mörgum sögum. „Ég kalla mig sögumann plantnanna. Ég tala fyrir jurtirnar, bæði um hvaða sögur og þjóðtrú býr í þeim og hvort það sé lækningamáttur tengdur þeim.“

Bál á Jónsmessu eru algeng hefð erlendis en ekki á Íslandi fyrr en í seinni tíð.

„Það var bæði vegna þess að nóttin var svo björt en líka vegna þess að það vantaði eldivið.“

Björk hefur leitt gönguna undanfarin ár.

Brönugras og töfrasteinar

Af jurtunum er brönugrasið í sérstöku uppáhaldi hjá sagnamanni plantnanna.

„Það er grasið hennar Brönu, líka kallað elskugras, en rótin á því líkist tveimur eistum,“ segir Björk. „Þú leggur rótina undir kodda þess sem þú vilt að elskir þig og næsta morgun verður viðkomandi fullur af ást til þín.“

Þá er Jónsmessan líka tími til að leita að töfrasteinum.

„Þeir fljóta upp í tjörnum, þar á meðal í tjörn upp við Tindastól í Skagafirði þar sem steinarnir hoppa og skoppa og eru óskasteinar. Maður þarf að fara upp að tjörninni um miðnætti til að veiða þá.“

Dýrin fá líka útrás um hátíðina og eiga kýr það til að fara að tala, eins og frægt er. Þá synda selirnir líka í land, fella hamina og dansa í fjörunni.

„Fiskimenn vildu ekki leggja net um þessa nóttu því þeir voru hræddir við að veiða selmeyjar því fólk taldi að selirnir væru manneskjur í álögum.“

Gangan hefst klukkan 22.30 á fimmtudag við Árbæjarsafn. Björk hvetur fólk eindregið til að mæta með, eða nýta nóttina að minnsta kosti til að fara upp í fjall, finna sér mjúka laut og velta sér nakið upp úr dögginni á miðnætti.