Ég ætla að minnast mágs míns, Elís Poulsen í nokkrum orðum.

Elís var fæddur í Skopun Færeyjum 22.06.1952 d: 22.07.2019.

Eftirlifandi eiginkona hans er Jonna Krog, búsett á Sandi Færeyjum.

Elís og Jonna eignuðust tvö börn:

1.Anna María „Mía“ Krog Sörensen gift Steen Hjartan Sörensen, eiga þau synina Hjartan og Elías.
2.Ólav Enni Elísson ókvæntur og barnlaus

Foreldrar Elís voru hjónin Friðrikka María Poulsen húsfreyja f.07.10.1913 d. 22.06.1978 og Jóhann Hendrik Poulsen vélstjóri f. 13.01.1908 d. 06.10.1999

Alsystkini Elísar:

1. Sigurður Jóhann f. 1946 d.2005
2.Jakob Juul f.10.10.46
3.Martín Jóhann f. 23.02.1949 d.1957
4.Sunneva Marentza f.10.11.1950

Hálfbróðir frá föður, Kaj f. 12.07.1937 d. 2010

Hálfsystir frá móður, Sylvía f.21.10.1943.

Elís flutti til Íslands með foreldrum sínum og systkinum 1964 og bjó í foreldrahúsum á Þjórsárgötu 4 í Skerjafirði, en þar keyptu foreldrar hans sér efri hæð hússins er þau fluttust hingað til lands.

Elís lauk landsprófi frá Lindagötuskóla og eftir það stefndi hugur hans til frekara náms og lá leið hans í Garðyrkjuskóla Ríkisins í Hveragerði og lauk hann þaðan námi með Skrúðgarðaræktun sem aðalfag.

Ekki kom það mér á óvart, því Elís hafði næmt auga fyrir öllu því fagra í náttúrunni, ekki síst blómum og trjám, enda var garðurinn á Þjórsárgötu 4 mikið listaverk, er ég kom inn í fjölskylduna árið 1966.

Elís var ungur að árum er ég kynntist honum eða aðeins 14ára.

Þarna var unglingur sem hafði hugsjónir og hann lét þær rætast með árunum.

Oft var glatt á hjalla þegar Elís var annarsvegar, hann var skemmtilegur, uppátækjasamur, söngelskur og músíkalskur, enda átti hann eftir að vinna við að skemmta og fræða stóran hóp hlustenda um áraraðir.

Ég mun ekki rifja upp þann þátt í lífi hans, enda hafa fjölmiðlar Í Færeyjum, Íslandi, Noregi og Danmörku, minnst hans sem eins fremsta fjölmiðlamanns í Færeyska útvarpinu og einnig í sjónvarpinu.

Eins og fram hefur komið hafði Elís næmt auga fyrir öllu sem því sem fagurt var og kom það meðal annars fram í klæðnaði hans. Elís valdi föt sem hann keypti af smekkvísi sem bar þess vitni, að þar fór maður sem hafði næmt auga fyrir því sem hann klæddist, og einnig þegar hann valdi föt fyrir aðra, en það gerði hann þegar þannig stóð á.

Elís minn, þú hafðir næmt auga fyrir fötum, en einnig hafðir þú mikla ánægju af þegar eitthvað stærra stóð til hjá fjölskyldu þinni á Þjórsárgötunni, og tókst virkan þátt í því sem var að gerast.

Minnist ég þess með bros á vör, hvað þú varst fullur af áhuga er nálgaðist brúðkaup mitt og Sjúra, bróður þíns.

Þú jafnvel tókst þátt í að velja brúðarkjólinn minn, og þú valdir svo vel að ég varð yfir mig hrifin af kjólnum og að lokum var brúðarkjóll minn keyptur, og var það kjólinn sem þú komst fyrstur auga á, þegar við vorum að skoða brúðarkjóla.

Má því segja, að ég hafi gifti mig í kjól sem þú valdir Elís minn, skemmtileg minning og bara ein af mörgum.

Það var alltaf mikið líf og fjör á Þjórsárgötunni, enda voru þið systkinin gefin fyrir söng og hljóðfæraleik og ekki var nú verra ef tekin voru nokkur dansspor í stofunni, og þó hún væri ekki stór var hún nógu stór fyrir okkur ungmennin til að geta tekið nokkur dansspor.

Elís minn hugur þinn leitaði alltaf heim til Færeyja og þangað lá leið þín, þangað fluttir þú sá eini af systkinunum sem komu til Íslands.

Þú settist að á Sandi á Sandey, enda kynntist þú ungri stúlku þar, sem seinna varð eiginkona þín.

Mikið var gaman að koma og vera í brúðkaupi þínu og Jonnu er þið genguð í hjónaband 15. ágúst árið 1981, ógleymanleg minning að öllu leiti og brúðkaupsveislan ykkar stóð í nokkra daga, en það er víst þekktur siður í Færeyjum að giftingaveislur geta staðið í nokkra daga.

Þið Jonna voruð samrýmd hjón og þið stóðuð þétt saman í blíðu og stríðu, eins og kom berlega í ljós er Mía veiktist, hún þurfti þá að dvelja nokkrum sinnum á sjúkrahúsi í Kaupmannahöfn um lengri eða styttri tíma og var oft tvísýnt um líf hennar, en þið hjónin stóðu saman í styrk ykkar og mætti bænarinnar. Oft hringdir þú þá Elís minn í Sjúra, og svo töluðum við einnig saman áður en símtalinu lauk. Jonna er sterk kona og stóð þétt við hlið þína í gegnum öll árin sem þú barðist við þinn illvíga sjúkdóm.

Eftir að þú fluttir til Færeyja varð samgangur milli okkar minni eins og skiljanlegt er, því ekki voru ferðir milli landanna eins þéttar og þær er í dag. Svo liðu árin og þú fórst að koma oftar til landsins, en varst alltaf svo upptekinn við vinnuna enda voru þetta oftar en ekki vinnuferðir þegar þú komst til Íslands.

Þú hafðir því lítinn tíma til að hitta fjölskyldu okkar, þú þurftir að mæta hér og þar í viðtöl og á fundi og allt var þetta vinnutengt.

Ég er þakklát fyrir að ég og Óli gátum heimsótt þig og Jonnu þann 22. maí síðastliðinn, er við vorum á ferðalagi um Færeyjar.

Þú sast í stólnum þínum við tölvuna er við komum til þín en Jonna var í vinnunni. Þú brostir svo fallega þegar við komum inn til þín, að það var auðséð að heimsókn okkar gladdi þig. Þegar Jonna kom heim var ekki undan því komist, að setjast við matarborði inn í stofu þar sem veislumatur var fram borinn, alltaf sama gestrisnin á heimilinu sama hvernig á stóð.

Þarna sá ég þig í síðast sinn, á lífi Elís minn og sá með eigin augum hvað Parkinson sjúkdómurinn hafði lagst þungt á þig.

Kæri Elís, þú hefur verið svo mikið í huga mínum, síðan ég var við jarðaför þína þann 27. Júlí síðastliðinn að mér finnst kominn tími til að setja örfá orð á blað, til að minnast þín kæri vinur og mágur.

Að lokum set ég hér eitt erindi úr sálmi eftir mig:

Hvar er upphaf hvar er endir

hvernig fæ ég svar við því?

Eilífðin þó oss á bendir

að við hittumst öll á ný.

Þín mágkona, Hjördís Björg Kristinsdóttir