Jón Steingrímsson og Skaftáreldar er nýútgefin bók Jóns Kristins Einarssonar sagnfræðings, sem býður upp á nýja sýn á atburðarás sem eldklerkurinn lenti í í miðjum Skaftáreldum. Bókin er að stofninum til BA-ritgerð í sagnfræði sem Jón Kristinn skilaði í byrjun árs 2020 undir leiðsögn Más Jónssonar. Hún er nú komin út í auknu og endurbættu bókarformi.


„Miðpunkturinn í rannsókninni er séra Jón Steingrímsson sem er í seinni tíð aðallega þekktur fyrir sjálfsævisöguna sem hann ritaði á árunum eftir Skaftárelda og hins vegar eldritin þar sem hann lýsir Skaftáreldum og áhrifum þeirra,“ segir Jón Kristinn. „Hann lendir svo í máli sumarið 1784 þegar hann er beðinn af Lauritz Thodal stiftamtmanni á Bessastöðum um að flytja sex hundruð ríkisdali í innsigluðum böggli til sýslumannsins í Vík í Mýrdal.“


Á leiðinni ákvað séra Jón að opna böggulinn og deildi úr honum peningum til bágstaddra sem og sín sjálfs. Sú ákvörðun átti eftir að koma honum í vandræði og var hann kærður til yfirvalda í Kaupmannahöfn. Hann þurfti fyrir vikið að greiða sekt og biðjast opinberlega afsökunar.


Síðbúin viðbrögð


Í bókinni greinir Jón Kristinn málið út frá áður ónýttum samtímaheimildum.


„Það má segja að meginniðurstaðan sé sú að þarna eru íslenskir embættismenn annars vegar og danskir hins vegar í átökum um hvernig skuli haga þessari neyðaraðstoð, sem er að einhverju leyti nýtt sjórnarhorn á þessa atburði,“ útskýrir Jón Kristinn.


Hvernig var sýn þeirra á hvernig skyldi haga neyðaraðstoðinni ólík?


„Thodal stiftamtmaður vill senda Jón með peningana til Lýðs Guðmundssonar sýslumanns með mjög nákvæmar leiðbeiningar og vildi fá reikninga og kvittanir fyrir því hvernig þeim væri úthlutað. Það má eiginlega segja að hann hafi viljað fjarstýra þessari atburðarás með einhverjum hætti frá Bessastöðum,“ segir Jón Kristinn. „Þetta er í takt við þróun innan dansk-norska ríkisins, sem hófst um miðbik átjándu aldar og fólst í því að reynt var að auka miðstýringu og herða tök miðstjórnarinnar á fjarlægum svæðum eins og Íslandi.“


Þessar aðgerðir mættu andstöðu frá íslenskum embættismönnum sem vildu fá að haga málum eftir sínu lagi.


Það tók Jón Kristin talsverðan tíma að vinna sig inn í skjölin sem hann notaðist við í rannsóknum sínum.


„Skriftin er torlesin og ég naut mjög góðrar leiðsagnar frá Má leiðbeinanda mínum við að komast í gegnum þetta,“ segir hann og bætir við að eitt og annað hafi komið á óvart við rannsóknina. „Þeir sem hafa skrifað um atburði áður segja að það hafi verið sendir peningar til landsins frá Kaupmannahöfn 1784 og að peningarnir sem Jón deildi út hafi verið afrakstur söfnunar sem átti sér stað þar um veturinn.“


Þegar Jón Kristinn fór að gaumgæfa skjölin kom hins vegar í ljós að engir peningar voru sendir til landsins um vorið.


"Þessir peningar sem Jón deildi út voru því ekki úr þessari söfnun heldur voru teknir úr sjóði tukthússins við Arnarhól. Þannig að þar er ákveðið endurmat á viðbrögðum danskra stjórnvalda við þessum hamförum og sýnir hve seint þau brugðust við.“