Dagný Pálsdóttir svarar í símann á æskuheimili sínu, Aðalbóli í Hrafnkelsdal. Hún er búsett á Egilsstöðum en kveðst hafa flúið margmennið til að forðast smit kórónaveirunnar illræmdu. Þreifandi bylur sé úti en bróðir hennar, Gísli Pálsson bóndi, sé inni í bæ þessa stundina, það sé langbest að ég tali við hann – og réttir honum símann.

Gísli segir aftakaveður hafa geisað frá því kvöldið áður, (laugardagskvöld). „Þetta er harðasta veður sem komið hefur í vetur, hvassviðri og snjókoma og frostið fór niður í 10 stig. Í slíku veðri fennir inn um allar glufur. En nú er heldur að draga úr veðurhæðinni og spáð er hlýnandi með kvöldinu,“ segir hann æðrulaus. Hann kveðst ekki hafa litið á veginn en er viss um að hann sé lokaður. Það er ekkert nýtt. „Það var lokað hingað í nær þrjár vikur um daginn vegna snjóa, tíðarfarið var svo leiðinlegt að það þýddi ekkert að opna, það varð ófært jafnharðan,“ lýsir hann og bætir við. „En við þekkjum einangrun frá fornu fari. Hins vegar er maður orðinn góðu vanur frá síðari árum.“

Rúningur í gangi

Það er tvíbýli á Aðalbóli. Kristrún, systir Gísla, og hennar maður Sigurður Ólafsson, eiga hinn bæinn, þau eru hætt búskap og hafa komið sér upp öðru heimili á Egilsstöðum. Þangað er hundrað kílómetra leið. Gísli segir póstbílinn vera á ferðinni annan hvern virkan dag þegar fært sé en hann flytji ekkert umfram póstinn.

Aðspurður kveðst Gísli búa með með milli sex og sjö hundruð fjár. „Bræður mínir, Sveinn og Páll, eru hér til heimilis líka og hjálpa til á álagstímum. Það er nú verið að hespa rúningnum af núna. Sveinn hefur verið í því, við eigum bara gemsana eftir,“ segir hann. „Það dróst að það væri rúið hér vegna ófærðarinnar.“ Sauðburður á að hefjast um 10. maí, að sögn bóndans, sem viðurkennir að mikil vinna sé kringum hann. „Það er allt í lagi í góðu veðri en í leiðindatíð getur það verið snúið.“ Hann kveðst vera birgur af heyjum. „Það eru töluvert stór tún hér inni í dalnum og ég hef líka verið að heyja hjá öðrum, meira að segja úti á Héraði, í Skógargerði í Fellum. Þaðan var Páll, faðir minn, og þar hefur stundum verið heyjað héðan.“

Nóg til af kjöti Gísli kveðst ekki þjakaður af áhyggjum yfir að heimsfaraldurinn nái inn í Hrafnkelsdal. „Ég held ekki að sérstök hætta steðji að okkur en auðvitað getur maður náð í þessa veiru þegar maður fer í kaupstaðinn, ef maður gáir ekki að sér,“ segir hann með hægð. Spurður hvort eitthvað sé til í búrinu svarar hann: „Það er nóg til af kjöti – kannski helst mjólkurvörur sem vantar. Hér eru engar kýr.“ Ekki telur hann að bakkelsi muni skorta meðan Dagný sé á bænum. „Hún steikir kleinur og parta handa okkur bræðrum og er góð í því. Kemur hér og lítur eftir okkur. Hefur líka verið hér í sauðburði í nokkur ár og eldað ofan í mannskapinn. Það er lúxus.“

Spurður út í sjónvarpsáhorf svarar Gísli því til hann hann sé orðinn frekar lélegur að fylgjast með sjónvarpi. „Áhorfið er alltaf að minnka hjá mér. Ég horfi á fréttir og Kastljós og einn og einn þátt, Kiljuna meðal annars.“ Aðalbólsheimilið er landsþekkt fyrir ríkulegan bókakost. Gísli segir ágætis afþreyingu að kíkja í bækur, enda sé eitthvað til af þeim. „Ég er núna að glugga í Einræður Steinólfs. Var bara að fá þá bók. Hún er skráð af Finnboga Hermannssyni,“ segir hann. „Það er hressileg frásögn, hann var skemmtilegur hann Steinólfur í Fagradal.“

Sá eftir landinu undir Hálslón

Vegurinn inn í Hrafnkelsdal liggur yfir gljúfur Jökulsár á Dal en það er liðin tíð að áin byltist þar með boðaföllum. Hvernig kann Gísli við það? „Það er kannski ekkert mikil eftirsjá að ánni. Kárahnjúkalón er hér rétt fyrir innan og það fór mikið og fallegt land undir það, ég sé eftir því. Þar fór ég oft um áður. Fé fór mikið þar inn eftir, það greri svo ótrúlega snemma þar þó þetta væri svona hátt, það var svo skýlt þarna niðri í dalnum. Rosalega skýlt. Hreindýrskýrnar vissu af þessu gósenlandi, þær báru þar. Þetta var gríðarlega fallegt svæði og mjög sérstakt.“

Að lokum er Gísli spurður hvort einhver umferð sé um dalinn hans á sumrin? „Já, það er svolítið rennerí. Það liggur slóð hér fram hjá bænum og upp úr dalnum. Lengi vel var það eini vegurinn upp í Snæfell. Þar er yfir tvær ár að fara og um bratt fjall og er bara fært betur búnum bílum. Umferðin hefur minnkað eftir að Kárahnjúkavegurinn kom.“