„Þetta verður örugglega þjóðhátíð, því við ætlum að fjalla um svo merkilegan mann, Jónas Jónsson frá Hriflu. Hann var bæði dáður og hataður af þjóðinni,“ segir Framsóknarmaðurinn Guðni Ágústsson um fyrstu fræðslugöngu þjóðgarðsins á Þingvöllum í sumar, sem fram fer í kvöld.

Þessi „við“ eru, auk hans, þau Óttar Guðmundsson geðlæknir og Guðrún Eggertsdóttir, yngsta barnabarn Jónasar.

Óspar á stór orð

Gangan hefst á Hakinu við upplýsingamiðstöðina á vesturbrún Almannagjár klukkan 20, að sögn Guðna. Þar ætlar hann að lýsa þeim stórbrotna persónuleika sem til umfjöllunar er.

„Svo munum við ganga á Lögberg og þar mun Óttar Guðmundsson geðlæknir segja frá Jónasi, Stóru bombu, geðveikinni og læknadeilunni, því enginn lenti í jafnmiklum átökum við lækna og Jónas. Hann var óspar á stór orð og því var hann kallaður geðveikur. Þessu mun Óttar lýsa og síðan verður haldið að Þingvallakirkju, þar sem Guðrún Eggertsdóttir mun segja frá góðum minningabrotum um hinn góða afa sinn. Það sem meira er, Karlakór Kjalarness ætlar að syngja Kaldalónslögin, því Sigvaldi Kaldalóns var læknirinn sem Jónas skipaði í Keflavíkurumdæmi þegar læknarnir urðu vitlausir.“

Það urðu mikil átök

Guðni er fullur áhuga á umræðuefni kvöldsins.

„Jónas var gríðarlega sterkur stjórnmálamaður í áratugi og byltingarmaður, en á endanum felldur sem formaður Framsóknarflokksins. Það urðu mikil átök. En hann var maður sem lét verkin tala og barðist fyrir alþýðumenntun á Íslandi. Héraðsskólarnir voru bylting. Við eigum honum margt að þakka, þar á meðal Þjóðleikhúsið og fleira sem lýtur að menningunni. Hann bæði ataðist í listamönnum og dáði þá. Guðjón Friðriksson segir vel frá þessu öllu í bókunum þremur um Jónas, Maðurinn með sverðið og plóginn, Ráðherrann og Ljónið öskrar. Stóra bomban er einhver frægasta blaðagrein sem skrifuð hefur verið á Íslandi, hún var eftir Jónas sjálfan og birtist í Tímanum. Þetta voru ljót átök. Ég hefði ekki viljað lifa svona pólitík og kynntist ég þó ýmsu.“

Þá er komið að góðum lokaorðum í þessu spjalli og ekki klikkar Guðni:

„Þetta er Jónsmessan, ég held að sumarið sé að koma akkúrat í dag. Það er mjög trúlegt að tíðarfarið breytist þegar Jónasar frá Hriflu er minnst og ég skora á fólk að baða sig í dögginni í nótt.“