Stofnandi Íslensku óperunnar, stórsöngvari og skólastjóri Söngskólans í Reykjavík, Garðar Cortes, er áttræður í dag en gerir ekki mikið úr því. „Það verður ekkert merkisafmæli fyrr en ég verð níræður,“ fullyrðir hann. Segist vera alla daga í Söngskólanum og hefur nýlokið kennslustund í ljóðadeildinni þegar ég heyri í honum. „Það er fullt af nýjum söngvurum og mikill áhugi sem er bara dásamlegt,“ lýsir hann. Prísar sig sælan að hafa hausinn í lagi. „Auðvitað er maður aðeins farinn að lýjast, lappirnar orðnar skakkar og svona, en það kemur ekki að sök í kennslunni. Annars er voða mikið af góðum kennurum hérna.“

Nú vil ég vita um upprunann. Cortesnafnið, hvaðan er það? „Afi kom með það frá Svíþjóð. Hann hét Emanúel Cortes og var prentari. Ég hef ekkert grennslast fyrir um skyldfólkið í Svíþjóð, frændur mínir og frænkur hafa gert það. En ég er þjóðrækinn þegar Ísland á í hlut og er stoltur af að vera ættaður úr Sælingsdal í Dalasýslu. Svo var ég svo heppinn að taka við Karlakór Kópavogs, heldurðu að obbinn af félögunum sé þá ekki úr Dölunum? Það finnst mér voða gaman.“

Þú náðir þér nú í konu erlendis, bendi ég Garðari á. „Já, hún er ensk og heitir Krystyna. Hún var til í að flytja með mér til Íslands og vann mikið með mér sem konsertpíanisti og við Söngskólann líka.“ Hann segir börn þeirra þrjú öll í söngnum. „Nanna María er söngvari við norsku óperuna. Garðar Thor er hér, kennir við Söngskólann, og svo er Aron Axel nýbúinn með söngnám í Salsburg en er veirufastur þar. Elsta dóttir mín heitir Sigrún Björk, hún er kennari og býr hér í Reykjavík og svo ég segi þér frá afabörnunum þá á Sigrún Björk tvö, Nanna á eina stelpu úti í Noregi og Garðar er með okkar Kormák.“

Lokaspurning: Heldurðu upp á afmælið, þó það sé bara áttræðis? „Það verður eitthvað voða lítið. Ég kalla í Didda bróður og nánustu fjölskyldu og við gerum okkur smá dagamun.“