„Í gamla daga var ég alltaf að reyna að vera með tónleika með einkanemendum mínum,“ segir Elsa Waage söngkennari og ein af Nornunum. „Hugmyndin var að undirbúa þá undir einhvers konar tónleikahald sem þróaðist svo út í þetta.“

Kvartettinn gekk fyrst um sinn undir nafninu Jólanornirnar og segir Elsa að ekkert sé heiðið við það þar sem nornin sé vísun í ítalska sögu af gamalli konu sem vitringarnir þrír heimsóttu í leit sinni að Jesúbarninu.

„Gamla kerlingin bauð þeim inn og leyfði þeim að hvíla sig, en vildi ekki fara með þeim þótt þeir hefðu boðið henni með þar sem hún sagðist svo vant við látin við að þrífa,“ segir Elsa. „Svo sá hún eftir því daginn eftir og leitaði árangurslaust að þeim. Að lokum birtist henni engill sem gaf henni leyfi til að heimsækja börn í kringum jólin. Og það er þessi fræga norn sem flýgur á kústinum. Það er ekkert illt við það að kalla sig norn!“

Elsa segir þær stöllur þó reyna að halda í þá ímynd að þær séu nornir.

„Engin okkar er neitt unglamb, nema kannski Berta,“ segir hún og hlær. „Við reynum aðallega að hafa gaman af þessu, syngja bara hitt og þetta af því sem okkur þykir skemmtilegt.“

Berlín 1920

Á tónleikunum mun hver norn taka eitt lag eftir Weill áður en þær syngja saman lög sem þær radda.

„Við ætlum að taka Weill, þótt það verði ekkert væl á okkur,“ segir hún. Weill varð meðal annars fyrir valinu þar sem tónlist hans bjóði upp á fjölbreytta raddtækni. „Okkur langaði að gera eitthvað nýtt, en hann er kannski eitt af þeim tónskáldum sem býður upp á hvaða raddtækni sem er. Þetta eru stórkostleg lög sem fara vel við hvaða söng sem er.“

Í fyrstu segir Elsa að hugmyndin hafi verið að taka klassíska Vínar-tónlist, en það séu allir að vinna með það þessa dagana. „Við ákváðum þess vegna að fara í þetta andrúmsloft frá Berlín 1920. Það er eitthvað svart og nornalegt við það.“

Vegna fjöldatakmarkana verða tónleikarnir aðeins aðgengilegir í streymi sem verður frumraun fyrir Elsu og Nornirnar.

„Ég hef ekki upplifað þetta ennþá. Í þau skipti sem ég sungið í streymi hefur alltaf verið einhver hópur af áhorfendum, en það verður ekki núna,“ segir Elsa og tekur vel í uppástungu um að fylla kirkjubekkina af tuskubrúðum. „Já, og kannski einhvern sem hóstar og svona líka! Ég er svo háð því að hafa áhorfendur því þeir glæða tónleika svo miklu lífi en maður verður víst að venjast þessu.“

Tónleikarnir hefjast klukkan 12 og verða aðgengilegir í gegnum Facebook- síðu Fríkirkjunnar í Reykjavík.