Mér líst bara vel á þessar reglur. Svo þurfum við bara að laga okkar aðstæður sem best má vera að þeim. Það er gott að fá eitthvað til að miða við,“ segir Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, bóndi á Ljótarstöðum í Skaftártungu, um minnisblað sem Samband sveitarfélaga hefur sent út um sóttvarnir í göngum og réttum haustsins. „Við fáum alltaf einhverja smala sem ekki eru búsettir á svæðinu og í ár hefur verið mælst til þess að það fólk gæti sín afar vel og fari helst í sjálfskipaða sóttkví fyrir safn,“ bætir hún við.

Smalar þurfa jafnan að gista í skálum. Skyldi ekki vera legið þétt þar og þröngt setinn bekkurinn, eða hvað? „Á Skaftártunguafrétti erum við svo heppin að vera með stórt gangnamannahús á tveimur hæðum,“ lýsir Heiða. „Áður var hesthús á neðri hæðinni en þar sem húsið er notað sem gistihús yfir sumartímann var neðri hæðinni fyrir nokkru breytt í gistiaðstöðu með eldhúskrók og langborði, áþekkt því sem er á efri hæðinni. Við munum því geta dreift okkur á tvær hæðir og getum bæði sofið og matast án þess að vera í mikilli nálægð við hvert annað.“

Ekki mega fleiri en 100 manns mæta í hverja rétt, samkvæmt nýju reglunum. Heiða segir fólksfjöldann í Grafarrétt í Skaftártungu fara langt fram yfir það í venjulegu ári – en undir þann leka hafi verið sett. „Fjallskilanefnd hefur gefið út reglur um að ekki mæti fleiri í réttina en fimm fullorðnar manneskjur frá hverju lögbýli í sveitinni og þannig mun fjöldinn verða undir 100 þetta árið,“ útskýrir hún.

Heiða segir féð búið að vera sex til níu vikur á fjalli núna um mánaðamótin. „Upprekstrarleyfi á Skaftártunguafrétt og heiðarnar komu frá Landgræðslunni rétt fyrir mánaðamót júní, júlí og þá fóru bændur að tína féð í rólegheitum til fjalla. Miðað er við að það taki um tvær vikur svo kindurnar dreifi sér sem best og ekki skapist álag á landið á sleppisvæðunum.“

Þegar kemur fram í ágúst segir Heiða alltaf einhverjar kindur fara að tínast heim aftur. „Í dag, 28. ágúst, fórum við nokkur og smöluðum saman því fé sem var komið hér heim undir efstu bæi. Það er nú komið til síns heima, vænt og vel fram gengið eftir þetta einstaklega góða og hagfellda sumar sem við höfum notið hér á þessu landsvæði.“

Fyrstu smalar halda til fjalla á föstudaginn eftir viku, 4. september, að sögn Heiðu, og allur hópurinn verður kominn inn í afrétt mánudaginn 7. „Til byggða komum við svo, ef ekki verða tafir vegna veðurs, föstudaginn 11. og réttum þann dag og laugardaginn 12.,“ segir hún.

En óttast Heiða að COVID-19 muni spilla gleðinni í göngum haustsins? „Ánægjan sem fylgir skemmtilegri samvinnu fólks í erfiðri en skemmtilegri vinnu í stórkostlegu umhverfi verður söm og vanalega og eins gleðin yfir því að hitta aftur kindurnar sínar,“ svarar hún. „En það verður auðvitað skrýtið að fá ekki á svæðið allt það fólk og þann gleðskap sem alltaf fylgir þessari hátíð, réttarhelginni. Það verður auðvitað miklu færra fólk í lögréttinni og ekki hægt að láta ganga vasapela eða neftóbakshorn. Svo verður ekkert réttarball, sem er nú vanalega ein aðalsamkoma ársins. Það er auðvitað hábölvað, en við verðum þá bara að syngja hærra og dansa meira á næsta ári!“