„Ég hef átt alveg frábær ár frá því að ég var fimmtug,“ segir Sigríður Snævarr sendiherra sem fagnar sjötugsafmæli sínu í dag. „Ég ætla að taka því frekar rólega enda er þetta þannig dagur, flestir einhvers staðar í burtu.“

Sigríður stefnir á að fagna deginum með litlu hófi frekar en fjölmennri veislu þar sem henni finnst gaman að ná alvöru sambandi við fólk. Á hverjum föstudegi hefur hún og Berglind Ásgeirsdóttir kallað til borðs í Marshallhúsinu þar sem aldrei er von á sama fólki.

„Við köllum til alls konar fólk úr öllum áttum sem er það sem við diplómatarnir kunnum og þetta verður alveg geggjað. Yngsti gesturinn er fjórtan ára og sá elsti áttatíu og fjögurra. Þetta er fólk frá ólíkum sviðum samfélagsins og hver borgar fyrir sig.“

Spaðaás Íslendinga

Það væri heldur dregið úr ef Sigríði væri lýst sem að hafa víða ratað. Hún hafði unnið í tveimur íslenskum sendiráðum, þar á meðal í Sovíetríkjunum, áður en að hún var skipuð sendiherra fyrst íslenskra kvenna árið 1991. Þá hefur hún starfað sem sendiherra gagnvart á öðrum tug landa og sinnt öðrum verkefnum víðsvegar um heim. Sigríður segir að stóri spaðaás Íslendinga í alþjóðakerfinu sé að öll fullvalda ríki séu jafnstæð.

„Við höfum komist ansi langt á því að hafa rödd á alþjóðegum vettvangi,“ segir hún og bendir á að Ísland eigi utanríkisþjónustu sem sé eldri en lýðveldið. „Stofnunin var sett á laggirnar 1940 þegar Danmörk var hernumin. Ég er sjálf svo gömul í hettunni að ég var níu daga gömul í starfi 1978 þegar mér var boðið á Bessastaði til Kristjáns Eldjárns, í fötum af mömmu því ég átti engin spariföt sjálf.“

Þannig hefur Sigríður verið hluti af utanríkisþjónustunni í 43 ár sem er meira en helmingur af aldri stofnunarinnar.

Ítalskar taugar

Áður en Sigríður hóf störf í utanríkisþjónustunni hafði hún einnig ferðast mikið í námi og í starfi sínu sem leiðsögumaður. Hún hefur þannig tekið með sér mikinn lærdóm frá hverju landi í gegnum árin.

„Það er kannski þrennt sem mér þykir merkilegast í lífinu,“ segir hún. „Það er mikilvægt að hafa kjark, að vera vingjarnlegur og tala við alla sem jafningja og svo finnst mér mikilvægt að vera forvitinn – annars gerist ekki neitt.“

Aðspurð um hvaða lönd sitji mest í henni svarar hún að þau lönd sem maður heimsæki ungur hafi kannski mest áhrif á mann.

„Ég er voða mikill Ítali í mér,“ segir Sigríður sem stundaði nám á Ítalíu þegar hún var um tvítugt. „Ég náði að læra mjög góða ítölsku sem nýttist mér ansi vel þar sem ég hef verið sendiherra í öllum embættum Íslands á Ítalíu.“

Franskir siðir og sænskir

Sigríður lærði svo eitt og annað um tjáskipti af Frökkum.

„Í samræðum í Frakklandi tekur fólk oft upp gagnstæð sjónarmið, ekki til að rífast heldur til að leika sér aðeins,“ segir hún. „Þeir þola það ekki þegar þú byrjar samningaviðræður á því að reyna að semja. Ef þú ert með hendurnar í vösunum og sýgur upp í nefið þá geturðu gleymt samningnum. Á fundum með Frökkum er betra að byrja að tala um eitthvað annað en fundarefnið, til dæmis hvað myndin í andyrinu sé falleg eða hvað þetta minni þig á tónleika sem þú sóttir í gær.“

Þannig segir Sigríður mikilvægt að leiða Frakka inn í samræðurnar og leyfa þeim að kynnast þér sem persónu.

„Ég var aldrei spurð að því hvað ég gerði. Annað hvort þótti ég áhugaverð og skemmtileg persóna eða þeir nenntu ekki að tala við mig.“

Þá segist Sigríður einnig hafa lært mikið af Svíum.

„Þetta er svo mögnuð og gömul þjóð sem var komin með alþjóðlegt net langt á undan öðrum,“ segir hún og dásamar hugvit Svíanna. „Þeim dettur svo margt í hug til að styrkja sig sem mjúkt vald enda eru þeir yfirleitt vinsælasta landið hjá Sameinuðu þjóðunum.“

Miðar við nírætt

Í dag er Sigríður sendiherra Íslands gagnvart Ástralíu, Malasíu, Singapúr og Páfagarði, en Sigríður segir síðastnefnda umdæmið vera ólíkt öllum öðrum.

„Þetta er mjög áhugavert fyrir manneskju eins og mig sem hefur áhuga á heimspeki og hvernig samfélög eru mótuð,“ segir hún og bendir á að á Íslandi búi í dag um 17 prósent útlendingar og helmingur þar af séu kaþólskir. „Íslenski söfnuðurinn í kaþólsku kirkjunni er gríðarlega stór og sá mest ört vaxandi í heiminum.“

Sigríður segir mikilvægt fyrir Ísland að eiga sterka sendiherra sem sé orðið æ mikilvægara starf.

„Ég lít svo á að lífið sé verkefnatengt, að það séu verkefnin sem máli skipta, og ég mun halda þeim áfram. Ég er ekkert að hætta strax en miða kannski við nírætt.“