Þetta ferðalag var alltof stutt vinur.

Það er rétt eins og það hafi verið í fyrradag að við stóðum tveir undir götuljósi í Keflavík og gleymdum okkur í samræðum um tilgang lífsins, vináttu og fáfengileika hversdagsins. Og allar þær samræður þar sem reynt var að kryfja tilgang lífsins. Hvað væri mikilvægt og hvað ekki. Hvernig hægt væri að byggja upp réttlátt þjóðfélag þar sem manneskjan væri í öndvegi. Maður minn góður; endalausar vangaveltur. Og það er ekki langt síðan að vinahópurinn flutti saman inn í húsið ykkar Addýar í Keflavík, til að búa saman og til að lifa í samfélagi vináttu og hjálpsemi. Og samstarfið á Unglingaheimili Ríkisins þar sem við trúðum því að við gætum leiðbeint ungmennum til betra lífs. Og ferðalögin sem vinahópurinn í Keflavík skipulagði og fór í fullur tilhlökkunar. Ísland sem við vorum að uppgötva með allri sinni dýrð og ógnarfegurð.   

Síðar komu háskólaárin með sinn svita og tár, þið Addý í Bandaríkjunum og við Kristín hér heima. Og eftir heimkomuna þá fleiri ferðalög og fleiri löng kvöld.

Við dáðumst að því hvernig þið Addý héldu utan um fjölskyldu ykkar á sama tíma og þið byggðuð upp eitt athyglisverðasta fyrirtæki landsins. Alúð og áræðni með hæfilegum skammti af skynsemi og jarðtengingu. Þér líkt.

Ekki erum við í nokkrum vafa um að þú varst búinn að sjá fyrir þér næstu áfanga á þessu ferðalagi. Væntanlega með fjölskyldu og ástvini í faðmi þér. Það er í hæsta máta ósanngjarnt að þú fáir ekki að njóta lokakaflans í þínu viðburðaríka lífi. Það er hins vegar engin ástæða til að efast um að þín elskulega Addý muni halda merki ykkar á lofti.

Haustvísa 

Störin á flánni 
er fölnuð og nú
fer enginn um veginn
annar en þú. 
Í dimmunni greinirðu
daufan nið
og veizt þú ert kominn
að vaðinu á ánni ...

Hannes Pétursson

Góða ferð kæri vinur þangað sem förinni er núna heitið.

Þórarinn Eyfjörð og Kristín Jónsdóttir