Þjóðhátíðardegi Íslendinga verður eflaust fagnað í dag um allt land með fjölbreyttum hætti, ef veður leyfir. Dagskrá Árbæjarsafns verður á þjóðlegum nótum eins og vænta má og venja er, að sögn Guðrúnar Helgu Stefánsdóttur, kynningarstjóra. Hún nefnir sem dæmi að Vikivaki, hópur ungra dansara og hljóðfæraleikara sem hefur starfað saman frá árinu 2017, muni sýna gamla dansa og fjallkonunni verði skautað í Lækjargötu klukkan 14.

„Skólahljómsveit Grafarvogs mun marsera um svæðið og margir flottir fornbílar verða víðs vegar um svæðið. Svo verður harmónikkuleikari að spila og þeir sem vilja taka sporið geta gert það á torginu, eða við það. Þetta er allt ein heild. Svo eru líka kindur í haga og vappandi landnámshænur sem gaman er að fylgjast með. Félagar Heimilisiðnaðarfélagsins sýna fallegt handverk í völdum safnhúsum, Karólínusýningin í Kornhúsinu hefur vakið athygli, enda vönduð sýning og merkilegur arfur. Það er eitthvað fyrir alla og kosturinn við Árbæjarsafn er sá að safnsvæðið er stórt og fólk dreifist vel um.“

Guðrún Helga virðist vera tilbúin að stíga dansinn í Árbæjarsafni í dag. Mynd/Roman Gerasymenko

En hvað ef það rignir?

„Við erum búin að biðja um gott veður og ganga eins tryggilega frá því og okkur er unnt, en höfum stóran sal. Það þarf samt að rigna eldi og brennisteini til að við flýjum þangað inn,“ segir Guðrún Helga og tekur fram að aðgangur að hátíðinni sé ókeypis fyrir börn, öryrkja og þá sem mæta í þjóðbúningi síns lands.