Olíumálverk og skúlptúrar mæta augum í Þulu galleríi á Hverfisgötu 34. Bak við verkin er listakonan Helga Páley Friðþjófsdóttir. Hún segir titil sýningarinnar, Húsvörðurinn sem sló í gegn, vera langsóttan brandara sem erfitt sé að útskýra.

„Sýningin er eins og að skyggnast inn í óræðan draum. Það er niðurstaðan. Ég byrjaði á að teikna mynd af húsverði á sviði og það er tómur salur fyrir framan hann. Hann gæti verið í félagsheimili eða leikhúsi og hann er að skúra. En þetta er eins og þegar maður lá í blómabeðinu í unglingavinnunni og hlakkaði til alls sem var fram undan. Krakkar geta flogið um í eigin heimi, það er eiginleiki sem tapast dálítið þegar fólk verður fullorðið og fyllir hausinn á sér af rökum. Sem betur fer getur húsvörðurinn enn gleymt sér í dagdraumum og leyfir sjálfum sér að fara eitthvert með það sem hann er að gera. Það eru margar hugmyndir sem hægt er að hlaða á þennan húsvörð.“

Sjálf kveðst Helga Páley hafa átt ömmubróður sem var húsvörður hjá sjónvarpinu eftir að hann brá búi. „Milljónamæringur getur safnað innantómum lúxusheitum en manneskjur sem eru sáttar við sjálfar sig geta séð uppsprettu að ævintýri í sínu nánasta umhverfi hvar sem er.“

Sýningunni lýkur 24. apríl.